Chan leiðir mýsnar

faadsfRush Hour stjarnan og Íslandsvinurinn Jackie Chan, hefur verið ráðinn til að tala fyrir músaleiðtogann Mr. Feng, í teiknimyndinni The Nut Job 2, eða Hneturánið 2.

Fyrri myndin, Hneturánið, var frumsýnd í mars árið 2014, og þénaði meira en 120 milljónir Bandaríkjadala í sýningum um allan heim.

Þó að Feng líti sakleysislega út, þá er hann illvígur kung-fu meistari, rétt eins og Chan sjálfur, og mun vernda yfirráðasvæði sitt með öllum tiltækum ráðum.

„Það er afar ánægjulegt að tilkynna að Jackie Chan hefur bæst við í leikaraliðið,“ sagði leikstjórinn Cal Brunker í yfirlýsingu. „Jackie kemur með einstaka rödd sína í myndina, og það er sérstök ánægja að fá að vinna með slíkum hæfileikamanni, verðlaunaleikara og menningartákni í samtímanum.“

Framhaldið mun fjalla um íkornann Surly, sem safnar saman hópi dýra til að bjarga heimili þeirra, sem hinn illi borgarstjóri vill rífa niður.

Aðrir leikarar eru m.a. Katherine Heigl, Maya Rudolph, Will Arnett og Gabriel Iglesias.

Chan hefur talað inn á nokkrar teiknimyndir á ferlinum, og nægir þar að nefna Kung Fu Panda og kínversku útgáfuna af Mulan. 

The Nut Job 2 kemur í bíó 19. maí á næsta ári.