Barátta Mjallhvítanna

Spegill, spegill herm þú mér, hvaða Mjallhvít fegurst er?

Glöggir lesendur vita eflaust að von er á tveimur myndum um Mjallhvíti á næsta ári. Og fleirum á komandi árum ef stúdíóin fá að ráða. Hvernig má þetta vera? Skoðum stöðuna. Einu sinni (árið 2010) var mynd sem hét Alice in Wonderland, og öllum að óvörum varð hún ein af 10 tekjuhæstu myndum allra tíma. Allir vildu Lilju kveðið hafa, og þetta leiddi til nýs æðis á framleiðsluskrifstofum kvikmyndaveranna. Allir kepptust að því að koma myndum byggðum á ævintýrum eða klassískum barnabókum í framleiðslu, helst í þrívídd. Gamlar barnabækur og ævintýri liggja í almannaeigu, og þess vegna má hver sem er þróa kvikmynd eftir þeim flestum. Þannig er framleiðsla hafin á tveimur myndum tengdum Galdrakarlinum í Oz, og 3-4 aðrar á hugmyndastiginu. Hans og Gréta: Nornaveiðar, kemur í Mars 2012, ekki er langt síðan við sáum Rauðhettu og varúlfurinn í Red Riding Hood, og ég gæti haldið áfram.

Þessi grein fjallar hinsvegar um Mjallhvíti, og hvernig ævintýri hennar verður áberandi á næstu misserum. Universal, Relativity og Disney byrjuðu öll að þróa nýjar myndir um Mjallhvíti í fyrrnefndu æði. Við því var búist að ein þeirra myndi „sigra kapphlaupið“ og hinar myndu lognast út af, því varla væri það í þágu kvikmyndaiðnaðarins að ætla að gefa út þrjár myndir um það sama. En að minnsta kosti tvær þeirra eru væntanlegar á næsta ári, og hin þriðja hefur ekki lagt upp laupana enn. Förum yfir stöðuna.

Fyrst er mynd Relativity. Hún hefur ekki fengið nafn ennþá, kallast bara Untitled Snow White Project. (Átti að heita The Brothers Grimm: Snow White) Leikstjóri er hinn sjónræni Tarsem, (Immortals), og er myndinni lýst sem gamansömu ævintýri. Lily Collins leikur Mjallhvíti, Armie Hammer leikur prinsinn hennar, og Julia Roberts fer með hlutverk vondu drottingarinnar. Þá leikur Nathan Lane þjón drottningarinnar, og Sean Bean konunginn, pabba Mjallhvítar. Dvergarnir sjö verða ekki minnkaðir í tölvu, heldur leiknir af litlum leikurum sem margir hafa sést áður, Mark Povinelli, Jordan Prentice, Danny Woodburn, Sebastian Saraceno, Ronald Lee Clark, Martin Klebba og Joey Gnoffo.

Næst kemur mynd Universal, Snow White and the Huntsman. Þeir fengu auglýsingaleikstjórann Rupert Sanders í stólinn, og er þetta fyrsta mynd hans. Þessari mynd er lýst sem Mjallhvít mætir Hringadróttinssögu, ævintýri í bland við epíska stríðsmynd. Kirsten Stewart leikur Mjallhvíti, Chris Hemsworth leikur veiðimanninn, og Charlize Theron er vonda drottningin. Auk þeirra er Sam Claflin prinsinn, og einvalalið breskra leikara fer með hlutverk dverganna, Ian McShane, Stephen Graham, Eddie Izzard, Bob Hoskins, Toby Jones, Ray Winstone, Eddie Marsan og Nick Frost. Já, dvergarnir eru orðnir átta. Þegar hefur verið tilkynnt að gangi myndin vel, eigi þetta að verða þríleikur mynda.




Á meðan tökur eru hafnar á þessum tveim, hefur mynd Disney tekið það hægar. Hún kallast The Order of the Seven, og mun fjalla um dvergana sjö, sem alþjóðlega Shaolin munka – stríðsmenn, og gerast í Kína. Verið getur að Disney sé að reyna að fjarlæga sig Mjallhvítar kapphlaupinu, því hún er ekki lengur í titli myndarinnar, og verður greinilega ekki í aðalhlutverki. Leikstjóri er Michael Gracey, sem hefur unnið við auglýsingar og tölvubrellur áður.

Fyrrum samstarfsaðilarnir Universal og Relativity elda nú grátt silfur og keppast að því að vera fyrst. Relativity byrjaði og tók frá dagsetninguna 29. júní 2012 fyrir sína mynd. Universal hafði upphaflega ætlað sér að koma út í Desember 2012, en færðu sig hálft ár fram í tímann, og tóku dagsetninguna 1. júní. Relativity tók þessu illa, og færði sína mynd enn framar, til 16. mars 2012. Þannig að báðar myndir hafa nú mun styttri tíma en þær ætluðu sér til þess að koma afurðinni á tjaldið. Ekki er búist við því að myndirnar hreyfist meira, en það hefur þó ekki stoppað bardagann, Relativity er farinn að stilla upp myndum í samkeppni við Universal, Safe Haven, (byggð á bók eftir Nicholas Sparks) kemur út 1. júní.

Ég hef það einhvernvegin á tilfinningunni að þetta muni ekki endilega enda vel fyrir báðar myndirnar. Báðum hefur verið flýtt talsvert, og báðar eiga von á mikilli samkeppni þegar þær koma út, ekki bara frá hvor annari. Er rúm fyrir fleiri en eina Mjallhvíti í einu á skjánum? Tíminn verður að leiða það í ljós. Fylgist með frekari fréttum á kvikmyndir.is