Ný stikla: Mirror, mirror

Eins og lesendur kvikmyndir.is vita verður 2012 ár Mjallhvítar, en tvær mismunandi túlkanir á ævintýri hennar eru væntanlegar á hvíta tjaldið á árinu. Nú var að berast á netið fyrsta stiklan úr annari þeirra, sem hefur fengið titilinn Spegill, spegill. Julia Roberts fer með hlutverk vondu drottningarinnar hér, Lily Collins er Mjallhvít, Armie Hammer er prinsinn og Nathan Lane leikur þjón drottningarinnar. Leikstjóri er Tarsem (Immortals, The Fall) og hefur hann sagt sína útgáfu af Mjallhvíti eiga að verða sykursæta og miðaða beint á markhópinn börn. Sjáðu stikluna hér og dæmdu hvernig það hefur tekist:

Eru krakkarnir að fara að fatta tilvitnun í Scarface? Það boðar ekki gott að mínu mati með hversu miklum aulahúmor er reynt að selja myndina á hérna. En ég er náttúrulega ekki í markhópinum. Ég skil boltann eftir hjá ykkur – hvernig finnst ykkur Mirror, mirror líta út? Hvor lítur betur út, þessi eða stiklan af Snow White and the Huntsman?