Hugljúft undur

Í stuttu máli er „Wonder“ afar hugljúf mynd sem ætti að snerta flesta hjartastrengi.

Auggie litli (Jacop Trembley) byrjar bráðlega í grunnskóla og hann er frekar stressaður yfir því. Stráksi fæddist með sjaldgæfan litningagalla sem afmyndaði andlit hans og jafnvel eftir tugi aðgerða lítur hann ekki út eins og flestir. Tilveran er erfið fyrst um sinn enda verður hann fyrir barðinu á fordómum frá ýmsum en fljótlega eignast hann vin og fer að fóta sig ágætlega í þessu nýja og framandi umhverfi.

Þessar miklu breytingar einskorðast þó ekki við Auggie einan en mamma hans, Isabel (Julia Roberts), þarf skyndilega að finna sinn stað í heiminum eftir að hafa helgað tilveru sinni syni sínum með heimakennslu og stöðugu eftirliti. Eldri systir hans, Via (Izabela Vidovic), á einnig í smá tilvistarkreppu þegar hún skyndilega missir tengsl við æskuvinkonu sína og verður skotin í strák.

„Wonder“ býr yfir merkilega léttum tón á sama tíma og hún fjallar um miklar breytingar og rask í tilveru afar samheldinnar fjölskyldu. Það er stórt og ógnvænlegt skref fyrir Auggie að stíga út í grimman heim grunnskóla og jafnaldra sem hann hefur átt lítil samskipti við sökum aðstæðna enda hefur hann verið frekar verndaður heima fyrir. Áhorfandinn fær góða tilfinningu fyrir kvíða hans og verður ýmist leiður eða reiður þegar Auggie er strítt en jafnframt alveg ferlega glaður þegar hlutirnir ganga upp.

Saga Auggie er þó ekki sú eina sem fær sviðsljósið og það er trompið sem myndin býr yfir. Via hefur alla tíð þurft að sitja í baksætinu og fást við sín vandamál sjálf og tilvistarkreppa hennar og þörf fyrir smá athygli er góður hliðarþráður sem gefur aukið vægi. Isabel fagnar auknum tíma fyrir sjálfa sig á sama tíma og velferð sonar hennar er henni efst í huga en nú þarf hún að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og einbeitir hún sér að Masters ritgerð sem setið hefur á hakanum alla daga síðan Auggie kom í heiminn. Æskuvinkona Viu og vinir Auggie fá einnig að deila sviðsljósinu og fyrir vikið eru margir karakterar í „Wonder“ með ríka persónuleika og myndin er öllu áhrifaríkari fyrir vikið.

Í svona mynd skiptir miklu máli að leikarar skili sínu og þeir gera það svo sannarlega hér. Trembley er einstaklega góður og áhrifaríkur sem Auggie og Vidovic er ekki síðri sem Via. Tvær manneskjur sem báðar hafa átt frekar flókna tilveru, hvor á sinn hátt, en samheldni og einlæg væntumþykja halda böndunum sterkum. Einnig var gagnrýnandi hreinlega búinn að gleyma hve áhrifarík Julia Roberts getur verið en hún er algerlega heillandi í hlutverki Isabel og slær ekki feilnótu alla myndina. Loks er nauðsynlegt að minnast á senuþjófinn Owen Wilson. Leikarinn á það til að vera næsta óþolandi í sumum myndum en í smáum skömmtum virkar hann betur og hann er hreint frábær í hlutverki pabbans. Hann hefur í sjálfu sér minnst að gera hér en þegar hann birtist skilar hann sínu óaðfinnanlega.

„Wonder“ er með góðan boðskap um umburðarlyndi og afleiðingar fordóma, nauðsyn þess að yfirstíga ótta, þörf fyrir væntumþykju og athygli, gildi þess að fylgja eigin sannfæringu og vera vinur vina sinna og sýna aðgát í nærveru sálar. Eins og sumir myndu segja; ekkert nýtt undir sólinni en sé myndin vel skrifuð, vel leikin og vel unnin í alla staði er um að ræða tveggja tíma skemmtun sem skilar manni út í grimma heiminn á nýjan leik með bros á vör…og kannski eitt lítið tár á vanga.