Hitti kærustu fjöldamorðingjans

Leikkonan Lily Collins, sem tók að sér hlutverk unnustu fjöldamorðingjans alræmda Ted Bundy í kvikmyndinni Extremely Wicked, Shockingly Evil and Vile, sem frumsýnd verður 17. þessa mánaðar hér á Íslandi, hitti konuna sem hún leikur og fékk hjá henni góð ráð, en hún var kærasta Bundy í meira en 10 ár.

Parið á góðri stundu meðan allt lék í lyndi.

Unnustan heitir Elizabeth Kloepfer, og var lengi kærasta Bundy, jafnvel eftir að hann var dæmdur til dauða.

Bundy var handtekinn á áttunda áratug síðustu aldar eftir að hann hafði myrt með köldu blóði tugi kvenna, en hann viðurkenndi að lokum 30 morð á árunum á milli 1974 og 1978.

Eftir að hafa sloppið tvisvar undan klóm réttvísinnar, og lýst sig saklausan, þá játaði hann að lokum, og var settur á dauðadeild þar sem hann sat til ársins 1989. Það er The Greatest Showman leikarinn Zac Efron sem fer með hlutverk Bundy.

Collins sagði í samtali við This Morning, að hluti af undirbúningi fyrir hlutverkið hafi verið fundur með unnustu Bundy.

„Ég fór og hitti konuna sem ég leik. Það hjálpaði mér mikið. Hún var elskuleg, og sýndi mér efni til að skoða og ræddi við mig.“

Fjöldamorðinginn og kærastan.

Collins, sem er 30 ára gömul, sagði að Elizabeth hefði komið á tökustað og gefið henni góð ráð á meðan á tökum stóð.

Hún telur þó að Elizabeth muni ekki horfa á kvikmyndina. „Ég veit ekki hvort hún sér myndina, því það er erfitt. Það var létt yfir henni á tökustaðnum. Maður myndi ekki búast við því fyrirfram, miðað við hvað gerðist. Hún studdi okkur, og var yndisleg.“

Saman fyrir morðin

Extremely Wicked, Shockingly Evil and Vile kemur á Netflix þriðja maí, og þar verður ljósi varpað á líf Bundy og útskýrt hvernig hann fór að því að forðast fangelsið eins lengi og hann gerði.

Elizabeth var kærasta Bundy í 11 ár áður en leiðir þeirra skildu endanlega árið 1980, en þau voru áfram í sambandi eftir að hann fór í fangelsi. Þau voru saman í tvö ár áður en hann framdi sitt fyrsta morð, og svo níu ár eftir það.

Þegar hún fór að finna grunsamlega hluti heima hjá honum, fór hún til lögreglunnar, en hann var þó ekki handtekinn í það skiptið.

En eftir að hún fór til lögreglunnar í annað skiptið, þá byrjaði lögreglan að þrengja hringinn í kringum morðingjann, og sem fyrr sagði var hann dæmdur til dauða, og tekinn af lífi 24. janúar árið 1989.