5 hlutir sem þú vissir ekki um Dwayne Johnson og Fast Five


(N.B. Við vitum að samkvæmt dreifingaraðila er myndin kölluð Fast & Furious 5: Rio Heist á Íslandi, en þar sem aðaltitill myndarinnar, Fast Five, er svo miklu svalari munum við nota hann. Þetta er eins og með Live Free or Die Hard. Hvaða mynd er Die Hard 4.0 eiginlega?)

1. Fast Five er fyrsta myndin sem hann leikur í með Vin Diesel.

„Ég hef þekkt Vin í gegnum leiklistarferilinn minn. Við höfum alltaf haldið góðu sambandi og talað reglulega um að við þyrftum að gera eitthvað saman, en við vissum að það þyrfti að vera eitthvað sérstakt. Fast Five fannst okkur einmitt vera rétta verkefnið fyrir okkur. Persóna Diesel, Dom, er nú þegar vel þekkt og elskuð. En þarna fengum við tækifæri til að búa til persónu honum til höfuðs. Við vorum mjög spenntir yfir því og vorum vissir um að áhorfendur yrðu líka spenntir.
Bardagaatriðið á milli okkar er rosalegt. Það tók marga daga að taka það upp. Það var virkilega krefjandi, en maður veit að svona tækifæri býðst ekki á hverjum degi. Það vissum við báðir. Við höfum báðir verið í bransanum í nokkurn tíma og höfum gert slatta af kvikmyndum þannig að við bárum kennsl á hversu heppnir við vorum að fá að fletta ofan af persónunum sem við leikum og rífa hvor annan í okkur eins og skepnur!“

2. Hann var ekki eini nýliðinn í myndinni.

Johnson eyðir löngum tíma á skjánum með spænsku leikkonunni Elsu Pataky, sem einnig er ný persóna í seríunni. „Elsa hafði upp á að bjóða frábæra blöndu af hefðbundinni fegurð og þeirri vigt sem aðeins kvenmaður getur bætt við það að láta hendur standa fram úr ermum og afgreiða málin. Það eru aðeins nokkrar leikkonur sem geta boðið upp á þessa blöndu. Elsa var virkilega sjarmerandi í rullunni sinni.“

3. Hann gerðist Fast and the Furious-nörd áður en tökur hófust.

„Ég rakaði ekki bara á mér hausinn og lét mér vaxa hökutopp. Ég horfði á allar fyrri myndirnar, las baksögu hvers og eins og sá þónokkuð af viðtölum við þau. Ég vildi skilja hvað það var sem gerði það að verkum að sería eins og Fast & Furious hefur lifað svona lengi og notið svo mikilla vinsælda. Ég held að það komi með fjölskyldutilfinningunni sem litar hópinn. Auðvitað má ekki gleyma öllum kappökstrunum, flottu bílunum og hasarnum í myndunum, en kjarninn liggur í þessum fjölskyldutengslum sem persónurnar hafa hvor við aðra. Það er eitthvað sem fólk skilur og tengir við hvar sem það er í heiminum.“

4. Þetta er í fyrsta sinn sem hann vinnur með leikstjóranum Justin Lin.

„Ég var hrifinn af hugmyndinni að koma inn í seríu sem hefur notið mikilla vinsælda og hefur það sem þarf til að halda þeim vinsældum í áratug. Ég vildi fá að vera með í einhverju sérstöku. Meginmarkmið mitt var að búa til svalan en litríkan karakter sem áhorfendur myndu kunna vel við. Ég eyddi miklum tíma með Justin Lin þar sem við spjölluðum um persónuna og myndina í heild. Ég var hrifinn af sýn hans á myndina. Það sem er skemmtilegast fyrir leikarann er að fá að búa til eitthvað frá grunni og ég fékk að gera það. Justin tók sér fyrir hendur það rosalega verkefni að taka vinsæla seríu og koma henni á hærra plan. Mér fannst hann gera það með fyrri myndinni sem hann leikstýrði (Fast & Furious) og nú þurfti hann að gera það á ný.“

5. Hann leikur FBI-fulltrúa og ekki í fyrsta sinn.

„Það er rétt en þessi er rosalega agaður. Og hann lifir eftir einni meginreglu: Ég sinni mínu starfi, sama hvað það kostar. Hobbs er merkilegur fulltrúi því hann hefur gáfur og lævísi til að komast upp með að brjóta reglurnar, en um leið hefur hann styrkinn og sannfæringarkraftinn sem kemur að því að hafa ríkisstjórnina með sér í liði. Það er einmitt styrkur seríunnar, hversu mikið hún leyfir persónunum að vera á gráa svæðinu, fólk er ekki algott eða alslæmt. En hann er mjög skilvirkur í starfi sínu, sem er að hafa uppi á vonda kallinum. Í myndinni telur hann að Dom og Brian O’Conner hafi drepið fulltrúa. Hann lítur á félaga sína í FBI sem fjölskyldu sína, þannig að þeir eru efstir á lista hjá honum.“

-Texti: Kolbrún Björt Sigfúsdóttir