Má kynna fyrir ykkur áhöfnina?

Nýjasta Pirates of the Caribbean-myndin, On Stranger Tides, er væntanleg í bíó á morgun, 20. maí. Myndin er stútfull af nýjum og spennandi persónum og upplagt að kynnast þeim nánar.

ANGELICA (PENELOPE CRUZ)

Með bæði Svartskegg (Blackbeard) og Jack Sparrow í sínu föruneyti og ætti því engan að undra að hættulegt er að deila við Angelicu eða deila með henni nokkrum hlut, hvað þá hjarta sínu.

Hún er kona sem kallar sannleikinn lygar og lygar sannleikann og kann eða kann ekki að vera dóttir hins illræmda Svartskeggs. Hún á sér fáa líka hvað varðar hæfnina til að dulbúast og þegar kemur að svikum og prettum þá lærði hún af þeim besta, nefnilega Jack Sparrow. Hún þekkir sjóinn eins og handarbak sitt og hikar ekki við að slást við örgustu sjóræningja. En eitt á hug hennar allan, að bjarga sálu Svartskeggs frá fordæmingu, sama þótt það þýði að hún verði að sjá við Sparrow, lygi fyrir lygi, svik fyrir svik.

SVARTSKEGGUR – BLACKBEARD (IAN MCSHANE)

Svartasta sál og myrkasta hjarta sem sjóræningi hefur nokkurntíma alið, enda hræðast jafnvel þeir allra hugrökkustu nafn hans og persónu.

Svartskeggur er nafn sem hefur, í gegnum sjóræningjasöguna og örófir alda, aðeins verið muldrað og þá með óttablandinni virðingu. Skip hans, Queen Anne‘s Revenge eða Hefnd Önnu drottningar, er skipað uppvakningum og herbúið beinum andstæðinga hans í stað byssukúla. Þá má sjá elda djöfulsins fljúga í átt að óvinaskipum hans eða þeim ólukkans skipsverja sem fallið hefur úr náðinni og kastað í djúpin. Svartskeggur er illræmdur fyrir að fikta við myrku öflin en þegar þau aðstoða hann ekki notast hann við safírskreytt sverð sitt sem þekkt er fyrir skarpt blað og þunga. Eitt plagar þó Svartskegg, spádómurinn um dauða hans og vonast hann til að geta komið í veg fyrir að hann verði að veruleika með því að drekka af lind æskunnar. Sama hvað það kostar eða hvern þarf að beygja í svaðið, þá mun hann komast þangað, fyrr en seinna.

SYRENA (ASTRID BERGÉS-FRISBEY)

Gullfalleg og heillandi hafmeyja sem stríðir gegn straumnum sem ber illskeittari kynsystur hennar.

Mikil dulúð sveipar hafmeyjuna Syrenu, svo mikil í raun að enginn þekkir raunverulegt nafn hennar, en Syrena er það sem Philip Swift kallar hana eftir að Svartskeggur klófestir hana og handtekur. Eftir hatramma árás hafmeyjanna sem fylgdu henni kynnast Syrena og Philip betur. Vinskapur þeirra gerir þeim kleift að sameinast gegn óvini þeirra beggja, Svartskeggi. Hvort um sig mun kynnast hinu og afhjúpa sjálft sig um leið, en slík afhjúpun sálar og hjarta er lífshættuleg hverjum sem er.

PHILIP SWIFT (SAM CLAFLIN)

Hugrakkur hugsjónamaður og óttalaus. Trúboðinn þessi stríðir gegn öllu sem hann telur ranglæti og reynir að bæta heiminn, jafnvel bjarga sálu Svartskeggs.

Philip Swift er á leiðangri sem á alls óskilt við leiðangur sjóræningja og annarra sæfara á leið til æskubrunnsins. Hann leitar sér sáluhjálpar og jafnvel eftir að Svartskeggur tekur hann höndum og pintar hann trúir hann á hið góða í manninum. En eitthvað fer hjarta hans á flug við kynnin við hafmeyjuna Syrenu og hann fer að gruna að leiðin að sáluhjálpinni liggi utan þeirra leiða sem hin helga bók segir til um.

SCRUM (STEPHEN GRAHAM)

Handlaginn mandólínleikari og sjóræningi sem kynnir Sparrow fyrir Hefnd Önnu drottningar, skipi Svartskeggs.

Ef virði mannsins væri mælt í gáfum hans þá væri Scrum manna aumastur. Þó hann sé ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni kann hann ýmislegt fyrir sér, meðal annars í tónlist og svo listinni að pretta. Scrum er settur á milli steins og sleggju, annarsvegar getur hann valið að vera Angelicu tryggur þjónn eða fylgt aðdáun sinni á Jack Sparrow og séð til hvað úr verður. Eitt er víst að veiklunda sál eins og hann á ekki roð í hafmeyjurnar og þeirra töfrandi tálbrögð.

-Texti: Kolbrún Björt Sigfúsdóttir

(Grein birtist upphaflega í Myndum mánaðarins, 208. tbl.)