Mótmælendamynd Sorkin mögulega beint á Netflix

Næsta kvikmynd handritshöfundarins og leikstjórans Aaron Sorkin, gæti farið beint á Netflix, og sleppt því alfarið að fara í bíó.

Aaron Sorkin svarar spurningum úr sal.

Sagt er frá málinu í á vef Radio Times.

Sorkin skaust upp á frægðarhimininn með handritsvinnu sinni við sjónvarpsþættina The West Wing, og hefur síðan þá skrifað nokkrar ævisögulegar kvikmyndir, eins og The Social Network, Steve Jobs, og Molly´s Game, en hann leikstýrði einnig þeirri síðastnefndu.

Næsta kvikmynd Sorkins, sem hann lauk við löngu áður en kórónuvírusinn fór að herja á heiminn, heitir The Trial of the Chicago Seven og segir frá einum alræmdustu réttarhöldum í nútímasögu Bandaríkjanna.

Myndin gerist árið 1968 og segir frá sjö aðilum sem mótmæltu Víetnamstríðinu. Þeir voru ákærðir fyrir samsæri, og að hvetja til óeirða, eftir að þeir stóðu að friðsamlegum mótmælum á ársþingi demókrataflokksins. Mótmælin snerust upp í átök við lögreglu og þjóðvarðliðið.

Með hlutverk sjömenninganna fara Sacha Baron Cohen (Borat), Jeremy Strong (Succession), John Carroll Lynch (American Horror Story), Eddie Redmayne (Fantastic Beasts), Alex Sharp (The Hustle), Noah Robbins (Unbreakable Kimmy Schmidt) og Daniel Flaherty (The Americans).

Upphaflega átti að frumsýna myndina í bíó í október, en samkvæmt frétt frá Variety kvikmyndaritinu, þá gæti myndin farið beinustu leið á Netflix, ef ekki nást samningar um alheimsdreifingu.

Ef myndin fer beint á Netflix, þá bætist hún í hóp annarra mynda frá leikstjóranum sem þar eru til sýningar, eins og The Social Network, Moneyball, Steve Jobs og The American President.