Michael Mann gerir Heat 2

Kvikmyndin Heat frá árinu 1995, með þeim Robert DeNiro, Al Pacino, Ashley Judd og Val Kilmer, á sér marga aðdáendur. Þeir hinir sömu ættu nú að leggja við hlustir, því leikstjóri Heat,  Michael Mann,  hefur hafist handa við að skrifa skáldsögu sem ku verða forsaga sögunnar sem sögð var í Heat.

Mann hefur stofnað sérstakt útgáfufyrirtæki, Michael Mann Books, og ráðið til sín hóp af rithöfundum, en fyrirtækið hyggst gefa út bækur og annað efni, með það að markmiði að þróa áfram inn í kvikmyndir og sjónvarp.

Heat 2 er eins og fyrr sagði forsaga Heat og á að fjalla um mótunarár rannsóknarlögreglumannsins Vincent Hanna ( Al Pacino ), Neil McCauley (Robert De Niro), Chris Shihirles (Val Kilmer),  Nate (Jon Voight) og annarra persóna.

Mann byggði kvikmyndina á raunverulegum sögum af glæpamönnum og löggum.

pacino-de-niro-heat-xlarge

Söguþráður Heat er í stórum dráttum þessi: Neil og glæpagengi hans sérhæfir sig í stórum ránum þar sem koma við sögu brynvarðir bílar, bankahólf og hvelfingar. Hópur lögreglumanna er á hælunum á þeim Þegar verkefni klúðrast kemst lögreglan á sporið, en á meðan ákveður hópurinn að vinna eitt lokaverkefni saman, til að eiga nóg af seðlum það sem eftir lifir ævinnar.

Neil og Vincent Hanna eru um margt líkir og einkalífið hjá báðum er í hálfgerðri rúst. Neil fer ekki eftir því sem kennari hans í glæpafræðunum kenndi honum í gamla daga, að passa að hafa aldrei neitt þannig í lífinu að þú getir ekki yfirgefið sviðið á þrjátíu sekúndum, ef þú finnur fyrir yfirvofandi hættu,  þegar ástin knýr dyra.