Með/á móti: Iron Man

(Með/á móti er fastur liður á síðunni þar sem tveir stjórnendur með ólíkar skoðanir á tiltekinni bíómynd segja nákvæmlega það sem þeim finnst (helst í minna en 300 orðum) og er undir notendum komið að velja þá hlið sem er raunsærri, skemmtilegri eða meira sannfærandi. En svo er alltaf séns á því að skoðun þín sé mitt á milli)

Að þessu sinni erum við að taka Marvel-myndirnar til að byggja upp spenning fyrir hinni væntanlegu The Avengers. og byrjum á hinum hressa Iron Man með sjarmatröllinu Robert Downey Jr. En nú er það einn á móti tveim. Þ.e.a.s. Tómas Valgeirs tekur móthliðina og hefur haft sæmilegan tíma síðan 2008 til að fínpússa sína hlið á málinu. Hann hefur jafnvel tekið fyrir í tveim þáttum af Bíótali (fyrir mynd 1 og 2) að hann sé ekki sérlega hrifinn af ræmunni og hefur líklega nóg að bæta síðan þá. Þau Þorsteinn Valdimarsson og Birta Sæmunds taka með-hliðina til að gera leikinn sanngjarnan, krydda upp með/á mót-formattið, og gefa okkur tvö ólík sjónarhorn á jákvæðu hliðinni.

Þorsteinn segir:

Mér finnst í rauninni hlægilegt að við séum að gera „með/á móti“ grein um Iron Man. Á þetta ekki að vera um umdeildar myndir? Hún er með 94% á Rotten Tomatoes! Ég veit eiginlega ekki um neinn nema Tomma sem fílaði hana ekki! Hversu margar ofurhetjumyndir – eða bara stórar heimskar sumarmyndir yfirleitt – geta sagt það sama?

En hvað var gott við Iron Man? Nokkurnvegin allt! Fyrir mína parta allavega. Ég persónulega hafði engar væntingar, Marvel myndirnar árin á undan höfðu upp til hópa verið arfaslappar (Daredevil, Fantastic Four, Hulk…) og náðu varla að selja hugmyndina sem þær byggðust á. Iron Man gerði það hinsvegar snilldarlega. Heimur myndarinnar var raunveruleikatengdur, og „sci-fi“ hlutum myndarinnar var það vel laumað inn í að einhvernvegin varð næstum því trúverðugt að snjall vísindamaður gæti smíðað sér fljúgandi járnbúning í helli í Afganistan!

Í stuttu máli var svo persónusköpunin frábær, ekki bara á Robert Downey Jr. heldur hittu flestar aukapersónurnar í mark líka (ég saknaði t.d. Terrence Howard sjúklega mikið í IM 2). Húmorinn er aldrei langt undan sem heldur myndinni á floti og hasaratriðin eru notuð sparlega – en eru geðveik þegar þau koma (rosalega oft sem hasarmyndir klikka á þessu að mínu mati). Skil að það trufli fólk að handritið hafi verið örlítið fyrirsjáanlegt og endirinn hafi ekki verið eins epískur og fólk vildi – en fyrir mig var þetta frábær afreyingarmynd, nákvæmlega eins og þær eiga að vera.

Birta segir:

Ég er yfirleitt aðdáandi þeirra kvikmynda sem byggðar eru á comic books þó ég hafi aldrei lesið þær af alvöru. Svo yfirleitt veit ég í raun ekkert um hvað sagan er og hef því ekki það forskot sem margir hafa að vita mikið um söguna, sem á sinn hátt gæti verið heppilegt því það er ekki af ástæðulausu að sagt er: „Ignorance is bliss.“ Ég get því horft á myndirnar og skemmt mér yfir þeim án þess að fussa og sveia yfir því hversu ótrú kvikmyndin er sögunum. Það er bara eitthvað við (margar, ekki allar) þessar myndir sem er svo skemmtilegt: létta spennan, húmorinn og ýktu persónurnar. Það er allt leyfilegt og maður er ekki að hugsa allan tímann: „glæææætan að þetta væri hægt!“ Iron Man er engin undantekning þar á og er með öllu: grunnhyggna kvennabósanum sem verður að auðmjúku hetjunni, sætu saklausu stelpunni sem á ögurstundu kemur til bjargar, falska umhyggjusama vininum sem verður vondi kallinn og besta vininum sem reynir að hafa vitið fyrir hálfvitaskap hetjunnar en sogast svo í vitleysuna með honum. Mér hefur alltaf fundist Iron Man vera stórskemmtileg mynd og það er að miklu leyti Robert Downey Jr. að þakka, en að mínu mati á hann þann karakter núna því ég gæti ekki ímyndað mér neinn annan í þessu hlutverki. Downey Jr. er bara svo ótrúlega góður grínleikari með kaldhæðni að aðalfagi.

Tommi segir:

Ég er svona eiginlega að svindla núna því ég er í sjálfu sér ekki „á móti“ þessari mynd í hefðbundinni merkingu. Iron Man er fín mynd sem lúkkar töff, hljómar vel og er greinilega gerð af miklum áhuga, fyrir utan það að einn uppáhalds skíthæll okkar allra stendur sig eins og (hvað annað?) hetja í titilhlutverkinu. Ef fólk ætlar hins vegar að kasta í myndina stóru orðunum (eins og „ein besta ofurhetjumynd sem til er!“) verð ég ekki bara að vera harkalega ósammála því, heldur fæ ég þá hugmynd að það fólk hefur ekki horft á margar góðar bíómyndir.

Reynum að gleyma því í smástund að strúktúrinn á myndinni er klunnalega líkur Batman Begins (ekki láta mig fara að telja upp senurnar), því það er nógu stór kvörtun í sjálfu sér. Iron Man hefur reyndar ferskan, snyrtilegan stíl en alltof kunnuglegan efnivið (köllum þetta Origin 101). Hún er nokkuð skörp fyrstu tvo þriðjunganna en springur svo alveg út í skrípalega, ófullnægjandi tjöru í lokahlutanum (sorrý en ég hata „Translate“ senuna svooo mikið!! Sjaldan séð eins aulalega handritsreddingu). Fyrirsjáanlega illmennið missir marks og anti-climax merkin eru fleiri en ég kæri mig um í ofurhetjumynd. Ég hef margoft horft á þessa mynd, svo í kringum klukkutíma markið hugsa ég oftast: „Bíddu nú við, þetta er bara nokkuð gott!“ Svo finnst mér eins og hafi hellst heitt kaffi á „third act“ blaðsíðurnar í handritinu.

Aldrei mun ég skilja hvernig Iron Man gat fengið betri dóma heldur en t.d. Batman Begins (hvað þá Inception, helvíti hafi það!). Mig langar að dýrka þessa mynd, en mér finnst hún bara ekki gera mikið sem Batman Begins gerði ekki töluvert betur. Nolan kom fyrst, og Nolan fer alltaf síðastur út!

Og nei, Þorsteinn. Með/móti gengur ekki út á bara umdeildar myndir, heldur er þessi liður notaður til að sýna ólíkar skoðanir á hverju sem er (vinsælt/óvinsælt, gott/slæmt), og hann verður að sjálfsögðu ekki leiðinlegri ef deilt er um mynd sem “allir” fíla 😉

Ég hlakka að vísu til að sjá hvað höfðinginn Shane Black gerir við þriðju myndina.

 

Jæja…
HVORU MEGIN VIÐ LÍNUNA ERT ÞÚ?