Loki er vampíra

Síðustu misserin hafa uppvakningamyndir og vampírumyndir hverskonar notið mikilla vinsælda, og er ekkert lát þar á. Í vampíruflokknum ber hæst á síðustu árum Twilight myndaflokkurinn og sjónvarpsþættirnir Vampire Diaries og True Blood.

only lovers tom

Ein af nýju myndunum í þessum flokki er eftir hinn þekkta leikstjóra Jim Jarmusch, en myndin ferðast nú á milli kvikmyndahátíða og var meðal annars sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík nú í haust, RIFF. Myndin fer síðan í almennar sýningar með vorinu.

Í helstu hlutverkum eru þau Tilda Swinton, Mia Wasikowska, Tom Hiddleston ( Loki í Thor ) og John Hurt, en myndin heitir því rómantíska nafni Only Lovers Left Alive, eða Aðeins elskendur eftirlifandi.

Myndin fjallar um elskendur sem bæði eru vampírur, Adam sem er þunglynd rokkstjarna sem býr í sóðalegu húsi í Detroit, og Eve, sem býr í Tangiers í Marokkó. Þegar Eve finnur á sér að Adam er að sökkva niður í þunglyndi, þá flýtir hún sér að koma til hjálpar ( þau hafa yfirskilvitleg andleg tengsl )  En hamingju þeirra og friðsælu lífi er raskað þegar vandræðagepillinn og vampíran Ava, litla systir Eve, birtist.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: