Lóa teiknimyndin til 30 landa, 30 mánuðum fyrir frumsýningu

Í mars sl. samdi íslenska teiknimyndafyrirtækið GunHil ehf. um heimsdreifingarsölurétt á tölvuteiknimyndinni Lói – þú flýgur aldrei einn við þýska kvikmyndasölufyrirtækið ARRI Worldsales, sem er hluti af ARRI group, þýsku stórfyrirtæki í kvikmyndaiðnaðinum.

Í fréttatilkynningu frá GunHil ehf. segir að nú sé búið að ganga frá forsölu á myndinni til hátt í 30 landa, en salan fór fram á kvikmyndamarkaðinum á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem nú er að ljúka.

lói

Meðal landa sem hafa tryggt sér sýningarrétt á myndinni má meðal annars nefna S-Kóreu, Kína, Rússland, Baltísku löndin þrjú, Miðausturlönd, Egyptaland, Pólland og Ísrael.

Eins og segir í tilkynningunni þá hefur í öllum tilfellum verið samið við þekkt og stöndug dreifingarfyrirtæki á sínum heimamörkuðum.

„Þessar forsölur er sérstaklega athyglisverðar í ljósi þess að en enn er vel á þriðja ár þangað til að teiknimyndin verður afhent til dreifingar. Moritz Hemminger sölustjóri ARRI Worldsales í Cannes segir í viðtali: „Það voru uppboð á sölum til Rússlands og S-Kóreu og það er mjög sjaldgæft að loka svo mörgum samningum svona snemma í ferlinu.“ Erlendir kvikmyndafjölmiðlar á við Screen Daily og Variety hafa þegar greint frá þessum forsölum frá Cannes,“ segir í tilkynningunni.

Teiknimyndin Lói – þú flýgur aldrei einn fjallar um lítinn lóuunga sem kemur síðastur úr eggi og á erfitt uppdráttar í lífinu. Þegar haustið kemur, þá er unginn ekki orðinn fleygur. Eftir röð atvika þá endar hann einn eftir þegar fjölskyldan flýgur til heitari landa og þarf að takast á við harðan vetur og óbilgjarna óvini.

Friðrik Erlingsson skrifar söguna og handritið að myndinni sem verður í leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar (Brim, Blóðbönd) og Gunnars Karlssonar sem jafnframt hannar útlit og persónur myndarinnar. Myndin er framleidd af Hilmari Sigurðssyni, Hauki Sigurjónssyni og Michael Coldewey.

Heildar framleiðslukostnaður myndarinnar er áætlaður um 1,3 milljarðar króna og verður hún framleidd á Íslandi og í Þýskalandi í samstarfi við Trixter, eitt stærsta teikni- og tölvubrellufyrirtæki Þýskalands. Eins og áður segir er myndin seld á heimsvísu af ARRI Worldsales. Myndin er framleidd með þrívíddar tölvuteiknimyndatækni og verður dreift á Íslandi af Senu.

GunHil ehf. var stofnað á fyrri árshelmingi 2012 af Gunnari Karlssyni og Hilmari Sigurðssyni sem hafa unnið lengi saman í skapandi greinum. Ásamt þeim er Haukur Sigurjónsson einn eigenda og veitir hann Svíþjóðarskrifstofu fyrirtækisins forstöðu. Árni Geir Pálsson er stjórnarformaður GunHil ehf.