Lloyd klár í Back to the Future 4

Back to the Future leikarinn Christopher Lloyd segir að ef gerð verði Back to the Future mynd númer fjögur, þá sé hann  klár í slaginn.

Leikarinn, sem nú er 77 ára gamall, lék hinn léttgeggjaða vísindamann Dr. Emmett Brown í upphaflega þríleiknum, sem kallaðist Aftur til framtíðar á íslensku. Í samtali við The Hollywood Reporter sagði Lloyd: „Ég væri meira en til í að leika Doc aftur, engin spurning.“

En líkurnar á því að af þessu verði eru ekki miklar, einkum vegna þess að aðalstjarnan, Michael J. Fox, er með Parkinson sjúkdóminn.  „Það er erfitt að koma með hugmynd sem er jafngóð og í upphaflegu þremur myndunum,“ bætti Lloyd við.

„Það yrði áskorun fyrir handritshöfundana að finna frumlega Aftur til framtíðar sögu, sem byggi yfir sömu ástríðu og ákefð og spennu og hinar þrjár. En það er mögulegt, maður veit aldrei.“

Um Fox sagði Lloyd: „Hann er svo hlýr og klár og hugaður í baráttu sinni við Parkinson´s.  Hann er ósigrandi. Það er bara frábært að vera í kringum hann.“

„Ég held að burtséð frá Parkinson´s, þá myndin hann slá til, og verða frábær. Ég sé ekki fyrir mér að hægt sé að gera nýja mynd án hans.“

Llody myndi vilja að Bob Zemeckis leikstýrði myndinni og Bob Gale skrifaði handrit.

Lloyd hefur í mörg horn að líta sem fyrr. Fjórar kvikmyndir sem hann leikur í verða frumsýndar á þessu ári, þar á meðal rán-grínmyndin Going in Style, sem nú þegar er búið að frumsýna, og vegamyndin Boundaries, þar sem hann leikur á móti Vera Farmiga, Christopher Plummer og Kristen Schaal, en hún verður frumsýnd síðar á árinu.