Lifandi dauðar myndlíkingar

 

Myndlistarmaðurinn Chris Jordan er þekktur fyrir stór og mikil verk sem taka fyrir samband manns við umhverfi sitt á gagnrýninn og frumlegan hátt, einkum og sér í lagi í gegnum fókus á fjöldaframleiðslu, offramleiðslu og ruslasöfnun. Hann vinnur aðallega með ljósmyndun og hefur sett saman stórar seríur af myndefni sem teygja sig gjarnan yfir margra ára tímabil. Eitt slíkt verkefni ber heitið Midway og hóf göngu sína sem ljósmyndasyrpa, en hefur vaxið til muna síðan það hófst árið 2009 og stefnir nú í frumsýningu sem heimildamynd í fullri lengd seinna á þessu ári.

Titillinn vísar til eyjunnar Midway í Kyrrahafinu, sem er verndað svæði fyrir dýr og fugla. Þar er m.a. að finna mikla byggð sjófugla af tegund Laysan-albatrosa, en þeir eru meginefni verkefnisins sem Jordan leggur nú lokahönd á. Við eyjuna safnast líka ógrynni af rusli frá mannheimum, sérstaklega plasti sem fuglarnir eiga til að rugla saman við fæðu þar sem ruslið flýtur um í sjónum. Innan um alla náttúrufegurðina á Midway-eyju má því einnig finna þúsundir dauðra fugla. Líkamar þeirra eru fullir af ómeltanlegu plasti – holdið hefur rotnað burt en plastið situr óskaddað eftir – í eins konar lifandi dauðri myndlíkingu um áhrif mannfólks á umhverfi sitt. Fuglarnir á Midway-eyju lifa í undarlegum snertipunkti við mannkynið, því þótt engin mennsk byggð sé á staðnum þá hefur hluti af okkar samfélagi blandast þeirra heimum svo um munar, með skelfilegum afleiðingum.

Á bloggsíðu myndarinnar er fugladauðinn réttilega kallaður „ótrúlega táknrænn harmleikur“ og tökuliðið sem hefur farið í reglulegar heimsóknir undir stjórn listamannsins sagt hafa fest á filmu „margþætta myndhverfingu um okkar tíma“. Midway stefnir í að verða einkar áhugaverð blanda af hryllingi og fegurð, lífi og dauða, eyðileggingu og endurnýjun, þar sem fuglalíf verndarsvæðisins er í senn náttúrundur og sorgarsaga. Efnið hefur þegar snert duglega við almenningi, en myndin er að miklu leyti framleidd með stuðningi fólks í gegnum Kickstarter og með frjálsum framlögum á vef myndarinnar. Verkefnið sýnir alla burði til að verða merkileg heimildamynd sem mun eflaust taka góðan hátíðarúnt síðar á árinu og vonandi enda á íslenskum tjöldum fyrr en síðar.

Nýlega stiklu má sjá hér: