Liam Neeson reynir við gamanleik

Nýtt myndband frá skrifstofum Ricky Gervais hefur borist síðunni, og stórleikarinn Liam Neeson kemur þar við sögu. Í ljós kemur að Neeson er orðinn leiður á að vera bara í alvarlegum kvikmyndum, og vill með hjálp þeirra félaga snúa sér í auknum mæli að gamanleik – uppistandi, spuna og fleiru skapandi. Í ljós kemur að Neeson er sennilega alvarlegasti gamanleikari aldarinnar.

Að sjálfsögðu er þetta leikinn skets úr þættinum Life’s Too Short, en síðast þegar ég skrifaði um hann birtist Johnny Depp og sagði Gervais til syndanna fyrir gamanmálið á Golden Globes verðlaunahátíðinni. Höfundar þáttarins eru þeir Gervais og Stephen Merchant sem fundu upp á The Office og Extras. Þátturinn er í gervi-heimildarmyndaformi, og fylgir (leikinni útgáfu af) hinum dvergvaxna leikara Warwick Davis, og daglegu lífi hans í bransanum, með þeim Gervais og Merchant í aukahlutverkum. Hér er klippan skemmtilega:

En að öllu gamni slepptu, er ekki komin tími á að Neeson taki að sér almennilegt gamanhlutverk – það munaði litlu fyrr á árinu, þegar hann tók upp hlutverk fyrir The Hangover: Part II sem endaði svo á klippigólfinu.