Klassa drusla væntanleg í apríl – „Við fórum svolítið á hörkunni í gegnum allt“

Ólöf Birna Torfadóttir, leikstjóri og handritshöfundur, hefur margt á sinni könnu þessa dagana en hún frumsýnir sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd í byrjun apríl, en hún ber heitið Hvernig á að vera klassa drusla. Með aðalhlutverkin fara þær Ásta Júlía Elíasdóttir og Ylfa Marín Haraldsdóttir en leikararnir Þorsteinn Bachmann, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir fara einnig með hlutverk í myndinni.

Hvernig á að vera klassa drusla segir frá tveimur ólíkum vinkonum og uppákomum þeirra þegar þær fara að vinna á sveitabæ yfir sumarið. Fyrsta stiklan úr myndinni var afhjúpuð nýlega og má sjá hana hér að neðan.

Ólöf er annars vegar mikil áhugamanneskja um þá list að blanda saman alvarleika og hnyttnu gríni sem sækir í ákveðinn sannleika, eins og hún orðar það. Í nýlegu viðtali við DV segir Ólöf að kvikmyndin sé ekki þessi „týpíska byrjendamynd,“ sem hefur tvo leikara og einn tökustað.

„Við höfðum lítið fjármagn en bjuggum þarna til heilt samfélag yfir þetta sumar og notuðumst við fjölda tökustaða. Þetta hafðist allt á endanum og við fórum svolítið á hörkunni í gegnum allt. Það voru líka allir í teyminu svo opnir og ólmir í að vera með. Ég er mjög þakklát fyrir það,“ segir Ólöf í viðtalinu.

Kvikmyndin er lauslega byggð á lífi Ólafar og hennar reynslu en hún eyddi sjálf miklum tíma í sveit á yngri árum og segir að henni þyki afskaplega vænt um orðið drusla. „Ég var oft kölluð drusla þegar ég var yngri, en ekki samt í þeirri meiningu sem við þekkjum flest í dag,“ segir Ólöf.

„Þetta fylgdi því meira ef maður mætti eitthvert í smá rifnum fötum, með úfið hár eða var með gat á sokkunum. Þetta var oft notað til að gera lítið úr manni, og er að vissu leyti enn gert í dag. Mér finnst titill þessarar kvikmyndar berjast svolítið gegn því.“