Kasdan byrjar með hreint Star Wars borð

Eins og komið hefur fram á síðustu vikum þá eru þrjár nýjar Star Wars myndir í undirbúningi, sem sýndar verða á tveggja ára fresti frá og með árinu 2015. Einnig eru í undirbúningi myndir byggðar á einstökum persónum seríunnar, sem ekki hefur verið staðfest hverjar verða.

Lawrence Kasdan vinnur nú að því að skrifa handrit fyrstu nýju Star Wars myndarinnar, þeirrar sjöundu í röðinni, ásamt Simon Kinberg, sem þekktur er m.a. fyrir handrit sitt að myndinni X-Men: Days of Future Past. Kasdan skrifaði meðal annars handritið að Star Wars myndunum The Empire Strikes Back og Return of the Jedi.

Kasdan var í viðtali á dögunum við bandaríska blaðið Los Angeles Times og var þá spurður út í handritaskrifin.

Kasdan vildi í viðtalinu ekki staðfesta hvort að myndin sem hann væri að vinna að myndi hafa sérstakan fókus á eina persónu fremur en aðra, en hann leyfði sér þó að segja nokkur orð efnislega um það sem hann væri að gera, sem í raun gefur mönnum bara eitthvað til að hugsa um áfram.

„Ég er að reyna að byrja með hreint borð,“ sagði hann. „Það er ýmislegt hnýsilegt sem við teljum að hægt sé að hafa í sögunni sem gefur fólki eitthvað sem það hefur saknað að vita,  og við erum að vonast til að geta fært fólki það einmitt, og á sama tíma, að láta fólki finnast að það sé að upplifa eitthvað nýtt.“

Nú er spurning hvað Kasdan á við með þessu. Er hann að meina að hann ætli að kynna nýjar persónur til sögunnar? eða eitthvað allt annað ….

 

Stikk: