Ísmolinn skoðar Dirty Harry mynd

Ice Cube gæti orðið hinn nýi Dirty Harry ef áætlun hans og Three Kings leikstjórans David O Russel gengur eftir, að því er Empire kvikmyndablaðið greinir frá, en þeir félagarnir sem unnu saman að Three Kings, hafa verið að skjóta saman nefjum að undanförnu.

Ekki er þó um að ræða endurgerðir á Clint Eastwood myndunum um Dirty Harry, heldur yrði um að ræða myndir sem væru með svipuðum karakter og Dirty Harry, hvatvísan lögreglumann sem væri fljótur að grípa til vopna.

Samkvæmt Deadline vefsíðunni þá er Russell að sjóða saman sögu úr þessu ásamt Toby Emmerich hjá New Line kvikmyndafyrirtækinu.

Ísmolinn er upptekinn eins og er við að leika rannsóknarlögreglumann að elta spillta lögreglumenn í myndinni Rampart, og Russell er á fullu að gera Old St. Louis og Drake´s Fortune, sem er gerð eftir tölvuleik.

Þetta er því allt á byrjunarstigi enn þá, en ef af verður gæti þetta orðið byrjun á margra mynda seríu, og þar með myndi þetta koma í veg fyrir að Ice Cube leiki í fleiri myndum eins og Are we there yet, sem margir sjálfsagt fagna ákaflega.