Inhale aðeins í 90. sæti í Bandaríkjunum

Spennumyndin Inhale, sem þykir merkileg fyrir þær sakir að hún er nokkurs konar Hollywood-frumraun Baltasars Kormáks (þó hún sé fjármögnuð af indífyrirtækinu 26 Films og hinni íslensku Sögn), var frumsýnd bæði hérlendis og í Bandaríkjunum um nýliðna helgi. Eins og við sögðum frá í gær gekk henni prýðilega og náði fjórða sætinu á íslenska aðsóknarlistanum, þrátt fyrir að vera sýnd í færri sölum en bæði Takers og The Switch, sem enduðu í sætunum fyrir neðan.

Í Bandaríkjunum var hún sýnd í jafnmörgum sölum og hér heima, eða tveimur (einum í New York og öðrum í Los Angeles), en gekk ekki alveg jafn vel. Myndin endaði aðeins í 90. sæti af um 115 myndum með um 3.000 dollara í kassanum eftir helgina. Hlýtur þetta að vera minna en aðstandendur bjuggust við og setur framtíðarvonir myndarinnar í nokkra hættu. Þó verður að teljast líklegt að hún verði líka tekin til sýninga í einhverjum bíóum í New Mexico, Texas og nágrenni, en þar er sögusvið myndarinnar og því líklegra að hún hali inn áhorfendur á þeim slóðum.

Baltasar er nú á fullu að undirbúa tökur á Contraband í New Orleans og Panama, en Hollywood-vélin knýr þá mynd algerlega áfram, með fjármagni frá risunum Universal og Working Title Films. Sú mynd á bókað eftir að gera betur þegar hún verður frumsýnd eftir rúmt ár.

Fóru einhverjir á Inhale hér um helgina? Hvernig fannst ykkur?