Harry Potter slær líka í gegn á Íslandi

Í gær sögðum við frá því að lokamyndin um Harry Potter, The Deathly Hallows: Part 2, hefði slegið öll tekjumet í Bandaríkjunum og á heimsvísu þegar hún var frumsýnd um helgina. Nú eru tölur komnar frá íslenskum bíóum og þar er svipuð saga: Harry er með laaaaangstærstu fimm daga frumsýningarhelgi ársins, eða samtals 20.166 áhorfendur frá miðvikudegi til sunnudags. Er þetta mun meira en POTC: On Stranger Tides halaði inn í maí, en á hana mættu 13.878 manns fyrstu fimm dagana í bíó. Gríðarleg aðsókn á miðvikudag og fimmtudag varð reyndar til þess að Harry endaði fyrir neðan bæði Pirates og The Hangover Part II þegar aðeins föstudagur, laugardagur og sunnudagur eru taldir, en þar fóru um 9.400 manns á Harry á meðan báðar fyrrnefndu myndirnar fóru yfir 10.000 áhorfendur á sínum frumsýningarhelgum. Samt sem áður er þetta gríðarleg aðsókn og mikið afrek, ekki síst þegar litið er til þess að hún var frumsýnd á einni mestu ferðahelgi ársins, og í fágætu góðviðri, þegar bíóferðir eru kannski ekki efst í huga Íslendinga.

Það er því aðeins tímaspursmál hvenær Harry nær að töfra sig upp fyrir aðsóknarhæstu mynd ársins til þessa, Klovn: The Movie, sem dró rúmlega 42.000 manns í bíó í upphafi árs.

-Erlingur Grétar