Indy 4 tætt í sundur á klukkutíma

Mike Stoklasa er ábyggilega einn þekktasti og um leið óvenjulegasti bíórýnirinn sem maður finnur á internetinu. Hann sló alveg í gegn með heilli 70 mínútna vídeóumfjöllun (eða krufningu öllu heldur) á Phantom Menace (talandi eins og feitur, gamall morðingi – sem er „alter-egóið“ hans svokallaða. Ekki láta það bögga ykkur. Það venst) og hefur klárað að fjalla um Star Wars-forleikinn ásamt ýmsum öðrum titlum (Avatar, Star Trek-serían o.fl.). Heimasíðan hans, RedLetterMedia.com hefur boðið upp á ýmislegt fjölbreytt og áhugavert en óneitanlega eru þessar óvenjulega löngu umfjallanir sem hann gerir það merkilegasta.

Þessi maður er þó ekki bara að kvarta út í eitt, heldur eru vídeóin hans vandlega uppsett, skoðanirnar afar vel rökstuddar og er ljóst að heimavinnan hafi svo sannarlega verið unnin hvað t.d. upplýsingar varða svo ekki sé minnst á það hvað hann er sjálfur fróður um það sem hann kafar út í. Persónulega er ég alls ekki áhrifagjarn þegar kemur að gagnrýni eða skoðunum annarra á myndum, en ég verð að segja að kortlögðu skoðanir hans á Star Wars-myndunum – og hvers vegna þær ollu honum vonbrigðum – fengu mig til þess að endurskoða álit mitt á sumum þeirra. Það kallar maður góðan gagnrýnanda (eða kvikmyndanörd með mjög útpældar athugasemdir), og ég efa ekki aðrir – jafnvel ýmsir íslendingar – séu bara ágætlega sammála því.

Red Letter Media hefur núna ákveðið að færa aðdáendum sínum smájólagjöf, svona rétt áður en herlegheitin byrja, og það er tveggja parta umfjöllun um Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull.

Eins og venjan hefur verið, þá er umfjöllunin býsna löng en hver einasta mínúta passar að sóa ekki tímanum með of miklu þvaðri. Ég mæli eindregið með þessu vídeói. Þetta segir ýmislegt það sem við höfum öll hugsað varðandi þessa mynd og svo ýmislegt meira sem enginn okkar hefur pælt í.

Smellið hingað til að horfa á vídeóumfjöllunina. Góða skemmtun og ekki spara kommentin eftirá.