Ifans verður illmenni í næstu Spiderman mynd

Velski leikarinn Rhys Ifans hefur verið ráðinn í hlutverk andstæðings köngulóarmannsins í næstu Spider man mynd sem frumsýnda á árið 2012. Ekki hefur þó verið tilkynnt um hvaða illmenni Ifans muni leika.
Ifans sló í gegn í bresku gamanmyndinni Notting Hill þar sem hann lék rytjulegan samleigjanda Hugh Grant. Síðan þá hefur hann leikið í myndum eins og Elizabeth: The Golden Age, Pirate Radio, Greenberg og Nanny McPhee Returns. Von er á Ifans á hvíta tjaldið í myndunum Mr. Nice, Harry Potter and the Deathly Hallows, Passion Play og Anonymous.

Marc Webb leikstýrir Ifans í Spider man myndinni, og handrit skrifar James Vanderbilt. Aðalkvenhlutverkið verður í höndum Emma Stone, og það er svo sjálfur Andrew Garfield sem leikur köngulóarmanninn.

Myndin verður frumsýnd í þrívídd þann 3. júlí árið 2012.