Hollywoodmynd um Línu Langsokk

Framleiðendur leiknu kvikmyndanna um björninn Paddington, StudioCanal og Heyday Films, eru nú með mynd í smíðum byggða á ævintýrum engrar annarrar en Línu Langsokks, eftir barnabókahöfundinn sænska Astrid Lindgren.

Lína og hesturinn hennar.

Framleiðslufyrirtækin tvö vinna náið með Astrid Lindgren Company að myndinni, sem fjallar um hina gríðarsterku og skemmtilegu stelpu Línu með rauðu flétturnar.

Lína birtist fyrst á prenti árið 1945, og var byggð á sögum sem Astrid Lindgren sagði dóttur sinni fyrir háttinn. Bækurnar um Línu hafa síðan þá verið þýddar á 77 tungumál, og meira en 65 milljón eintök hafa selst um allan heim. Sögurnar hafa lengi notið vinsælda hér á Íslandi, og vinsæl barnaleikrit verið sýnd byggð á sögunum.

Gerðar hafa verið kvikmyndir og sjónvarpsþættir eftir sögunum nokkrum sinnum í gegnum tíðina, eins og The Hollywood Reporter greinir frá.

Nils Nyman, afabarn Lindgren, og forstjóri Astrid Lindgren Film, segist spenntur að vinna með StudioCanal og Heyday vegna góðs árangurs fyrirtækjanna í að færa þekktar skáldsagnapersónur upp á hvíta tjaldið. “Við erum sannfærð um að við höfum hér fundið samstarfsaðila sem geta skilið og metið hve mikið gildi Lína Langsokkur hefur, og búa til kvikmyndir sem ná að sýna leikgleðina og inntakið í sögu ömmu minnar.”

Mynd um Línu frá árinu 1968