Heimsfrumsýning: Star Trek Into Darkness

Sambíóin heimsfrumsýna myndina Star Trek Into Darkness eftir J.J.Abrams á föstudaginn næsta, þann 10. maí. Myndin verður ekki frumsýnd fyrr en viku seinna í Bandaríkjunum, eða þann 17. maí.

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að myndin hafi verið að fá ótrúlega góða dóma frá þeim gagnrýnendum sem þegar hafa fengið að sjá myndina. „Hafa jafnvel sumir sagt að hér sé í rauninni fyrsta Star Wars myndin kominn enda mun J.J. Abrams leikstýra þeim í náinni framtíð,“ segir í tilkynningunni.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Söguþráður myndarinnar er þessi:  Eftir að mannskæð sprengja springur í London kemur í ljós að tilræðismaðurinn er fyrrverandi liðsmaður stjörnuflotans og hefur hvergi nærri sagt sitt síðasta!

 

Eftir sprenginguna öflugu í London kemur í ljós að það er John Harrison, fyrrverandi liðsmaður stjörnuflotans, sem stendur að baki ódæðinu. Um leið verður mönnum ljóst að John hyggst ekki láta staðar numið og hefur skipulagt fleiri og jafnvel enn öflugri árásir á sitt eigið fólk.

Við þessu þarf að bregðast og það kemur í hlut áhafnarinnar á Enterprise að stöðva brjálæðinginn áður en hann veldur meiri skaða …

Sem fyrr eru það þau Chris Pine, Zoe Saldana, Karl Urban, Simon Pegg, Zachary Quinto og Alice Eve sem fara með aðalhlutverkin ásamt Benedict Cumberbatch, en hann leikur tilræðismanninn sem telur sig eiga harma að hefna gagnvart sínu eigin fólki og er sennilega bæði hættulegasti og öflugasti andstæðingurinn sem þeir Kirk, Spock og áhöfnin á Enterprise hafa þurft að kljást við hingað til.

Aðalhlutverk: Benedict Cumberbatch, Chris Pine, Zoe Saldana, Karl Urban, Simon Pegg, Zachary Quinto og Alice Eve.

Leikstjórn: J.J. Abrams

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Laugarásbíó, Smárabíó, Ísafjarðarbíó og Bíóhöllin Akranesi.

Aldurstakmark: 12 ára

Fróðleiksmolar til gamans: 

• Nú þegar er undirbúningur að næstu Star Trek-mynd hafinn, en ekki er búið að gefa út hver muni leikstýra. Þess má geta að J.J. Abrams hefur verið fenginn til að leikstýra Star Wars mynd númer sjö sem verður væntanlega frumsýnd eftir tvö ár.