Gwyneth Paltrow stofnar súpergrúppu

Hvort sem það eru áhrif frá eiginmanninum eða eitthvað annað þá er nokkuð ljóst að Gwyneth Paltrow hefur gaman af söng en þrátt fyrir afar lélega dóma seinustu söngvamyndar hennar, Country Strong, er önnur slík á dagskrá hjá Gwyneth. Í þetta skiptið deilir hún sviðinu með engum öðrum en Cameron Diaz og Reese Witherspoon en allar leika þær söngkonur sem eiga það sameiginlegt að hafa átt einn hittara á níunda áratugnum og feril sem fór í súginn eftir það. Þær taka á það ráð að stofna súpergrúppu til að freista þess að endurheimta áður glataða frægð.

Hugmyndin að myndinni á að hafa kviknað þegar Ryan Murphy, maðurinn á bakvið Glee, bauð fyrrnefndum leikkonum út að borða og var hugmyndum kastað á milli þar til One Hit Wonders varð til. Sony Pictures var ekki lengi að sannfærast og er verið að vinna í samningum núna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ryan Murphy og Gwyneth Paltrow vinna saman en hún hefur þrisvar sinnum leikið gestahlutverk í þáttum hans við ágætis dóma gagnrýnenda og hlaut hún meðal annars Emmy verðlaunin fyrir.

Söguþráður One Hit Wonders minnir óneitanlega á That Thing You Do frá árinu 1996 og Music and Lyrics frá 2007 svo hugmyndin er ekki beint ný. Þarna eru þó þrjú stór nöfn leikkvenna, þar af tvær Óskarsverðlaunaleikkonur auk þess sem Beyoncé hefur verið orðuð við myndina sem og Andy Samberg sem mun veita aðstoð við tónlistina sem hluti af The Lonely Island liðinu.

 

Auk þess að leikstýra ætlar Ryan Murphy einnig að skrifa handritið ásamt handritshöfundum Glee, þeim Brad Falchuk og Ian Brennan (og að mínu mati eru þeir þættir bráðfyndnir), svo kannski má eiga von á skemmtilegri söngva-gamanmynd.