Bullock malar gull


Þó að skipst hafi á skin og skúrir hjá leikkonunni Söndru Bullock á þessu ári, hafandi fengið Óskarsverðlaun fyrir The Blind Side nú í vor en svo skilið við eiginmann sinn Jesse James skömmu síðar, eftir að hann hélt framhjá henni, þá getur hún þó brosað þegar feitt launaumslagið skríður inn um lúguna.

Bullock er nú orðin launahæsta leikkonan í Hollywood samkvæmt viðskiptablaðinu Forbes, en á síðustu 12 mánuðum hefur hún þénað 56 milljónir Bandaríkjadala eða um 6,6 milljarða íslenskra króna, og geri aðrir betur!
Peningana má hún þakka tveimur myndum sem nutu mjög góðs gengis í miðasölunni, rómantíska gamanmyndin „The Proposal“ og fótboltamyndin „The Blind Side.“

Bullock fékk peningana ekki eingöngu fyrir leik sinn, heldur samdi hún um að fá prósentur af innkomu myndanna í miðasölunni. „The Blind Side“ þénaði nærri 310 milljónir Bandaríkjadala um allan heim en myndin kostaði næstum tíu sinnum minna í framleiðslu, eða aðeins 40 milljónir dala. Þetta var því fanta góður díll hjá leikkonunni, ef má orða það svo.

Leikkonan í öðru sæti listans eru Reese Witherspoon og í því þriðja er Cameron Diaz, en þær þurfa svo sannarlega heldur ekki lepja dauðann úr skel á næstunni, báðar þénuðu þær 32 milljónir dala á síðustu 12 mánuðum.

Witherspoon hefur reyndar ekki verið í mynd síðan árið 2008, en hún fékk fyrirframgreiðslu fyrir myndirnar „How Do You Know“ og „Water for Elephants“ sem væntanlegar eru í bíó.

Diaz malaði gull á myndunum „Knight and Day“ og „Shrek“ seríunni, sem hefur notið gríðarlegra vinsælda.

Jennifer Aniston er í fjórða sæti með 27 milljónir dala og Sarah Jessica Parker er í því fimmta með 25 milljónir.

Listann allan má skoða hér: www.forbes.com