Stjórnendur hjá kvikmyndaverinu Warner Bros hafa gefið til kynna að Beetlejuice 3 sé á leiðinni.
Framhald klassísku myndarinnar frá árinu 1988 eftir Tim Burton, þar sem Michael Keaton, Winona Ryder og Jenna Ortega léku stærstu hlutverkin, hlaut almennt jákvæðar umsagnir hjá gagnrýnendum, fékk góðar viðtökur og þénaði 451 milljón dollara um allan heim.
Myndin hefst með dauðasenu Charles Deetz (Jeffrey Jones), og Lydia snýr aftur til Winter River ásamt dóttur sinni Astrid. Það líður ekki á löngu þar til nafn titilpersónunnar er sagt þrisvar og ringulreiðin hefst enn á ný.
Í samtali við Deadline greindu forstjórarnir Mike De Luca og Pam Abdy frá því að Beetlejuice 3 væri í vinnslu. De Luca sagði að vinna hæfist fljótlega, en bætti við: „Blekið er samt ekki alveg þornað á samningunum ennþá.“
Þótt gagnrýnendur hafi ekki tekið Beetlejuice Beetlejuice jafn fagnandi og upprunalegu myndinni var hún engu að síður vinsæl hjá bæði aðdáendum og nýjum áhorfendum. Beetlejuice Beetlejuice fór fram úr væntingum Warner Bros í sölu sem gerði upphaflega ráð fyrir 80-90 milljónum dollara í tekjur á frumsýningarhelginni í Bandaríkjunum, en myndin náði 111 milljónum dollara þar í landi. Framhaldsmyndin hélt svo áfram að safna nærri hálfum milljarði dollara á heimsvísu.
Leikarahópurinn var einstaklega öflugur, með nýjum persónum á borð við Astrid (Jenna Ortega), Rory (Justin Theroux), Delores (Monica Bellucci) og Wolf Jackson (Willem Dafoe). Velgengni framhaldsmyndarinnar Beetlejuice Beetlejuice hefur gert forstjóra Warner Bros spennta fyrir þriðju myndinni.
Hinn goðsagnakenndi leikstjóri Tim Burton var þó ekki alveg á sama máli í fyrra þegar hann var að kynna Beetlejuice Beetlejuice. Leikstjórinn grínaðist með að hann yrði orðinn yfir hundrað ára gamall þegar kæmi að því að leikstýra þriðju myndinni. Leikarinn Michael Keaton var hins vegar spenntur fyrir hugmyndinni og sagðist jafnvel til í að leika í Beetlejuice mynd árlega ef þess þyrfti.