Frábær mynd um slæma mynd

Í stuttu máli er „The Disaster Artist“ frábær mynd um hreint svakalegan sérvitring sem gat komið á koppinn hræðilegri mynd sem þó lifir betra lífi en margar frábærar myndir.

Það er til fullt af ömurlegum myndum en nokkrar öðlast ákveðinn költ status og verða fyrir vikið klassískar. Frægasta dæmið er án efa „Plan 9 From Outer Space“ (1959) eftir Ed Wood en sú mynd trónir á toppi margra lista yfir myndir sem eru svo slæmar að þær eru í raun góðar. „The Room“ (2003) eftir Tommy Wiseau þykir lítið síðri (ef svo má að orði komast) en frumraun þessa sérvitrings þykir með eindæmum illa unnin, illa leikin, illa skrifuð og viðvaningsleg í alla staði en í staðinn fyrir að falla í gleymskunnar dá telst myndin sígild í þessum vafasama flokk og er orðin að vissri klassík sem virðist alls ekkert ætla að gleymast.

„The Disaster Artist“ greinir frá tilurð myndarinnar „The Room“ og félagana tvo, Tommy og Greg Sestero (Franco bræðurnir James og Dave), sem hentu sér út í djúpu laugina í Los Angeles og ákváðu að skrá nafn sitt á spjöld sögunnar með því að gera mynd sjálfir eftir að hafa átt erfitt uppdráttar með að næla sér í hlutverk á hefðbundna mátann. Tommy skrifaði handritið, leikstýrði, lék aðalhlutverkið og fjármagnaði myndina og besti vinur hans, Greg, lék næst stærstu rulluna í stykkinu.

Tommy Wiseau hlýtur að vera ein af áhugaverðastu persónunum sem fyrirfinnast í Hollywood en þessi svakalegi sérvitringur er ein stór ráðgáta og uppi standa kenningar og getgátur um hann en lítið um skýr svör. Gersamlega hæfileikalaus þegar kemur að kvikmyndagerð og leik en algerlega blindur á þá staðreynd sjálfur; en drifkraftur hans og ástríða í að eltast við draum sinn er aðdáunarverður og öðrum til fyrirmyndar. Wiseau hafði þó reyndar frekar mikið forskot á aðra meðal draumóramenn þar sem hann átti sand af seðlum og kostaði gerð myndarinnar sjálfur; um 6 milljónir bandaríkjadala. Þetta er ein af nokkrum staðreyndum um Wiseau sem enginn hefur getað fundið út sannleikann um en nokkrar getgátur eru uppi um hvaðan auðæfi hans koma frá. Hreimur hans og talmál eru einnig af skrítnari toganum og svo spurning um hvar hann fæddist og hvenær (IMDB greinir nú frá síðustu tveim atriðinum en sumir fullyrða að þær upplýsingar séu ekki réttar).

Aðalleikarinn og jafnframt leikstjóri myndarinnar, James Franco, finnur góða nálgun á persónunni Tommy og góður leikur hans skilar áhugaverðum karakter sem þróast ekki í að verða að einhverri grínfígúru eins og svo auðvelt hefði verið. Þörf Tommys fyrir nánd og sannan vinskap er jafn mikilvægur hvati hjá honum og áráttan við að verða stjarna en klaufaleg nálgun hans á nánast öllu er viðkemur mannlegum samskiptum og ólýsanlega mikil sérviska í hegðun og tali hindra hann í hverju fótmáli. Hann virðist finna sig að einhverju leyti í angistarlegum „method“ leik Marlon Brando og James Dean en hefur litlu sem engu að miðla í þeim efnum, hvort sem hann leikur á sviði í áheyrnarprufum eða hinni alræmdu frumraun sinni. Kannski er hann hinn klassíski einstaklingur sem er utan síns tíma eða á öðru plani sem er okkur hinum utan skilnings. Ef eitthvað; þá er það óendanlega aðdáunarvert hve trúr hann er sjálfum sér og nær að hrinda frá sér neikvæðum gagnrýnisröddum og háði og halda ótrauður áfram með sýn sína á sjálfum sér. Hann er þó ekki ónæmur fyrir álti annarra en það bugar hann ekki. Tommy Wiseau er einfaldlega hin fullkomna ráðgáta. Fimmaura sálar hafa nóg að hugsa um að sýningu lokinni.

„The Disaster Artist“ er hreint frábær mynd með frábæran efnivið og þrátt fyrir að nálgast hann með alvarlegum hætti er margt alveg drepfyndið í gangi hérna. Áhorfandinn fær hálfgerðan hnút í magann þegar Tommy kemur sér í aðstæður sem erfitt er að sjá hann komast vel út úr (ekki ósvipað og Ricky Gervais tókst með „The Office“ þættina sína) og margt er leyst með góðu gríni í lokin.

Franco stendur sig eindæmum vel og ég ætla hreinlega að spá því að hann fái tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Dave Franco skilar sínu sem vinur Tommys og þjáningarbróðir í þessu ferli sem „The Room“ var og aðrir standa sig með stakri prýði. Hálfgerður senuþjófur hér er þó Seth Rogen í hlutverki kvikmyndatökumannsins sem skiljanlega furðaði sig ítrekað á því hvað í ósköpunum var í gangi á hverjum tökudegi.

Eitt er víst; „The Room“ er á dagskrá hjá mér og nú er maður spenntur fyrir því að setjast niður og horfa á eina hræðilega mynd. Guði sé lof fyrir þessa villtu sérvitringa og þeirra óbilandi trú á sjálfum sér.

Að lokum er væntanlegum áhorfendum bent á að sitja í gegnum „credit“ listann því stórskemmtilegt atriði skýtur upp kollinum að honum loknum.