Fimm bestu myndir Coen-bræðra

Í tilefni af útkomu nýjustu myndar Coen-bræða, Hail Caesar!, hefur Mark Kermode, einn virtasti kvikmyndagagnrýnandi Breta, sett saman lista yfir fimm uppáhalds Coen-myndir sínar á bloggsíðu sinni hjá BBC.

CoenTimber-Thumb

5. Miller´s Crossing (1990)

Myndin gerist á bannárunum í Bandaríkjunum á fjórða áratug síðustu aldar. Með helstu hlutverk fara Gabriel Byrne, Albert Finney og John Turturro.

4. No Country For Old Men (2007)

Myndin vann fern Óskarsverðlaun árið 2008, þar á meðal sem besta myndin. Alls var hún tilnefnd til átta Óskarsverðlauna.

Söguþráðurinn er á þá leið að veiðimaður finnur 2 milljónir dollara í reiðufé, dóp og fullt af líkum nálægt Rio Grande. Eftir það lendir hann í vandræðum.

Með helstu hlutverk fara Javier Bardem, Josh Brolin og Tommy Lee Jones.

3. Blood Simple (1984)

Söguþráðurinn: Abby heldur framhjá bareigandanum, eiginmanni sínum Marty. Kærasti hennar heitir Ray, sem er barþjónn sem vinnur hjá Marty. Marty ræður Visser, óheiðarlegan rannsóknarlögreglumann, til að drepa þau. En Visser, er með eigin gróðavænleg plön.

Með helstu hlutverk fara John Getz, Frances McDormand og Dan Hedaya.

 2. Barton Fink (1991)

Myndin var tilnefnd til þrennra Óskarsverðlauna árið 1992. Hún vann þrenn verðlaun á Cannes-hátíðinni, þar á meðal Gullpálmann.

Söguþráðurinn: Barton Fink er virtur handritshöfundur sem hefur verið fenginn af Hollywood-stúdíói til þess að skrifa kvikmynd um efni sem hann hefur lítið vit á. Í kjölfarið þjáist hann af ritstíflu, en hann kynnist hinum afar sérstaka Charlie, sem hann fær til að hjálpa sér með verkefnið.

Með helstu hlutverk fara John Turturro, John Goodman og Judy Davis.

1. Fargo (1996)

Fargo vann tvenn Óskarsverðlaun (fyrir besta handritið og fyrir besta aðalhlutverk kvenna) en var tilnefnd til sjö.

Myndin fjallar um bílasalann Jerry sem ákveður að hrinda í framkvæmd áætlun sem hann hafði undirbúið nokkru áður, en hún snýst um að fá tvo menn til að ræna eiginkonu hans, og heimta svo lausnargjald frá tengdaföðurnum, sem er vellauðugur. En eftir að mannránið á sér stað, fara hlutirnir strax að fara úrskeiðis.

Með helstu hlutverk fara William H. Macy, Frances McDormand og Steve Buscemi.

Athygli vekur að allar myndirnar á lista Mark Kermode nema ein eru tuttugu ára eða eldri. Margir sakna eflaust költ-gamanmyndarinnar The Big Lebowski á listanum, en fjarvera hennar er vísbending um hversu öflugar myndir þeir Coen-bræður hafa gert í gegnum tíðina.