Farrell galdrakarl í Harry Potter hliðarsögu

colin farrellTrue Detective leikarinn Colin Farrell hefur verið ráðinn í Harry Potter hliðarmyndina Fantastic Beasts and Where to Find Them. Farrell mun leika galdrakarl að nafni Graves sem hittir persónu að nafni Newt Scamander, sem Eddie Redmayne leikur, í New York.

Myndin fjallar um ævintýri Newt í leynilegu samfélagi norna og galdrakarla, þar sem hann er að reyna að skrásetja þessar töfraverur. Atburðirnir í sögunni eiga sér stað 70 árum áður en Harry Potter les bók Newt í skóla.

David Yates leikstýrir og J.K. Rowling, höfundur bókarinnar, skrifar sjálf handritið.

Eins og fyrr sagði þá leikur Farrell nú aðalhlutverk í sjónvarpsþáttunum True Detective, og hefur einnig leikið í fjölda vinsælla bíómynda, eins og leigumorðingjamyndinni In Bruges, gamanmyndinni Horrible Bosses og hinni sannsögulegu Saving Mr. Banks.

Aðrir helstu leikarar sem ráðnir hafa verið í Fantastic Beasts eru Katherine Waterston (Inherent Vice), Ezra Miller (The Perks of Being a Wallflower), Alison Sudol (Transparent), og Dan Fogler (Ball of Fury).

Myndin er væntanleg í bíó 18. nóvember 2016.