Expendables 2 verður PG-13

Nýjar fréttir voru að berast úr herbúðum The Expendables 2, og munu þær eflaust valda sumum aðdáendum myndarinnar vonbrigðum. Í viðtali við pólska sjónvarpsstöð tjáði Chuck Norris sig um myndina, og sagði að það hefði verið skilyrði sitt fyrir að taka þátt í myndinni að hún miðaði á ‘PG-13’ aldurstakmarkið í Bandaríkjunum. Hann sagði m.a.

„Í Expendables 2, var mikið gróft orðbragð sem hefði þýtt að ungt fólk hefði ekki getað séð myndina. Ég sagði: ‘Ég geri ekki svona myndir, ég gerði þær ekki í fortíðinni og ekki í sjónvarpsþáttunum mínum. Þið verðið að klippa út blóðtsyrðin og ljóta orðbragðið ef að ég á að vera með’. Þeir gerðu það, og núna verður The Expendables 2 ‘PG-13 – mynd’ svo að krakkarnir geti séð hana.“

Eins og Norris benti á þýðir PG-13 það að ‘ljótt’ orðbragð verður að vera mjög takmarkað í myndinni (t.d. má sem regla orðið ‘Fuck’ aðeins heyrast einu sinni – og ekki í kynferðislegu samhengi). En það þýðir einnig það að ofbeldisatriðinum verður stillt í hóf, og það ofbeldi sem sýnt verður má ekki vera of gróft og ekki of raunsætt – sem þýðir oft að blóðsúthellingar verða takmarkaðar. Svo er að sjálfsögðu mikil takmörkun á nektaratriðum, en það ætti nú vonandi ekki að hindra listrænt frelsi hasartöllanna mikið. En svo mikið er víst að ákvörðunin var alveg örugglega ekki tekin til þess að sætta siðferðiskennd Norris, heldur til þess að græða meiri peninga. Mynd sem 13 ára og eldri mega fara á græðir meira en mynd sem bara 16 ára og eldri mega sjá.

Fyrst er fréttirnar bárust töldu einhverjir að þetta væri vitleysa, etv. hefðu þeir hreinsað orðbragð handritsins en myndu samt ekki gera málamiðlanir í hasaratriðunum. En Stallone staðfesti fregnirnar sjálfur í orðsendingu til Harry Knowles. Þar sagði hann m.a. (gróflega þýtt):

„Lokabardaginn okkar verður svakalegur. PG-13 orðrómurinn er sannur, en áður en lesendur dæma, treystið mér þegar ég segi að þessi mynd verður STÓR á allan hátt og á að skila sínu. Myndin snertir margar tilfinningar og við viljum deila þeim með stærsta mögulega áhorfendahópnum, EN, ekki óttast, þessi risastóra grillveisla af Rassaspörkum mun ekki skilja neinn eftir svangann.“

Það er spurning að leyfa lesendum að deila skoðunum sínum? Treystum við Stallone og félögum til að skila sínu, eða eru menn svekktir að fá ekki alvöru, gamaldags og góða ‘R-Rated’ 80’s hasarmynd?