E.T. er þrítugur í ár

Í ár eru 30 ár liðin síðan E.T.: The Extra Terrestrial kom út og leikstjóri myndarinnar, Steven Spielberg, ætlar að fagna af því tilefni. Spielberg ætlar ekki að gera sömu mistök og félagi hans George Lucas hefur margoft gert með Star Wars myndirnar, þ.e. að breyta myndinni í endurútgáfu hennar, og því verður myndin endurútgefin í upprunalegri mynd.

Spielberg var mikið gagnrýndur fyrir að hafa breytt ýmsum atriðum E.T. í 20 ára afmælisendurútgáfu myndarinnar, m.a. með því að skipta út rifflum FBI lögreglumanna í talstöðvar.

,,Ég reyndi að breyta myndinni einu sinni en sá mikið eftir því, ekki bara af því að aðdáendur myndarinnar reiddust heldur því að ég var vonsvikinn með sjálfan mig. Ég var hörundsár yfir gagnrýninni sem E.T. fékk og ég hélt að ef tækninni fleygði fram gæti ég hugsanlega breytt henni til hins betra. Þetta var allt í lagi í smá tíma, en ég gerði mér að lokum grein fyrir því að ég hafði rænt æskuminningum aðdáenda E.T.“ sagði Spielberg í viðtali við sjónvarpsstöðina NBC.

Aðdáendur E.T. verða því eflaust himinlifandi yfir því að myndin verður endurútgefin á Blu-Ray í haust, nánar tiltekið í október. Áhugasamir geta borið saman stiklurnar hér fyrir neðan, en efri stiklan sýnir Blu-Ray útgáfuna og sá neðri sýnir breytta útgáfu á E.T. sem Spielberg gaf út fyrir tíu árum síðan.

Stikk: