Dumb and Dumber To fær Walking Dead stjörnu

laurieThe Walking Dead stjarnan Laurie Holden hefur skrifað undir samning um að leika aðalkvenhlutverkið í Dumb and Dumber To, framhaldinu af hinni sígildu gamanmynd Dumb and Dumber. 

Hún mun leika hlutverk Adele Pichlow, eiginkonu læknis sem notar þá Lloyd Christmas, sem Jim Carrey leikur, og Harry Dunne, sem Jeff Daniels leikur, til að hjálpa sér að hylma yfir illar fyrirætlanir sínar. Meðal annarra leikara í myndinni eru Kathleen Turner og Brady Bluhm.

Myndin fjallar um leit þeirra Lloyd og Harry að einu af óskilgetnu börnum sínum, sem þarfnast nýs nýra.

Bobby Farrelly og Peter Farrelly leikstýra myndinni og handrit skrifa Sean Anders og John Morris. Ekki er vitað enn hvenær tökur hefjast.

Laurie Holden lék Andrea í fyrstu þremur þáttaröðum af The Walking Dead áður en hún var drepin undir lok þriðju seríu. Hún hefur einnig leikið í bíómyndunum Fantastic Four, Silent Hill og The Mist. Hún lék einnig á móti Jim Carrey í dramanu The Majestic frá árinu 2001.

Dumb and Dumber To kemur í bíó á næsta ári.