Drukkna, brenna eða kremjast

Fyrsta stiklan úr spennutryllinum Escape Room er komin út, en þarna er á ferðinni mynd sem má segja að blandi saman stemmningu úr hrollvekjum eins og The Saw og The Cube, og aðferðum sem notaður eru við svokallaðar hópastyrkingar ( e. Team Building ) sem margir þekkja úr nútíma fyrirtækjapeppi.

Þarna mætast sex einstaklingar sem ekki þekkjast, eftir að hafa fengið boð um að taka þátt í skemmtilegum leik. Nú þurfa þau að finna leiðina út úr erfiðum aðstæðum, eins og læstu herbergi sem hitnar stöðugt og springur að lokum! Einnig á fólkið von á því að geta drukknað eða kramist til bana, allt heldur óþægilegir dauðdagar.

Í boði er ein milljón bandaríkjadala fyrir þann sem nær að sigra leikinn, en afhverju voru akkúrat þessi sex valin?  Svo virðist, ef mark er takandi á stiklunni, að einhversskonar Jigsaw karakter stjórni öllu á bakvið tjöldin.

Leikstjóri er Insidiuous: The Last Key leikstjórinn Adam Robitel, og helstu leikendur eru Logan Miller, Taylor Russell, Deborah Ann Woll, Tyler Labine, Jay Ellis og Nik Dodani.

Til gamans má nefna að fleiri myndir hafa verið að birtast um sama efni upp á síðkastið, til dæmis voru tvær slíkar, með sama heiti, frumsýndar í fyrra, önnur með Evan Williams í aðalhlutverki og hin með Skeet Ulrich. Hvorug virðist hafa náð neinum gríðarlegum vinsældum, en þá er bara spurning um þessa nýjustu.

Myndin verður frumsýnd á Íslandi 1. febrúar nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan, og plakatið þar fyrir neðan: