Die Hard 6 gerist árið 1979

Sjötta Die Hard-myndin er í undirbúningi. Hún mun bæði gerast á undan atburðum fyrstu myndarinnar og einnig í nútímanum. bruce willis die hard

Myndin, sem ber vinnuheitið Die Hard Year One, gerist að mestu árið 1979 og fjallar um John McClane og störf hans í lögreglunni í New York.

Ungur leikari mun leika McClane á áttunda áratugnum en Bruce Willis sjálfur leikur McClane í atriðunum sem gerast í nútímanum, samkvæmt kvikmyndasíðunni Deadline.

Len Wiseman, sem leikstýrði fjórðu myndinni Live Free Or Die Hard, fékk hugmyndina að söguþræðinum og hann mun einnig leikstýra. Enn á eftir að ráða handritshöfund.

Willis lék John McClane síðast árið 2013 í A Good Day To Die Hard, sem fékk slaka dóma hjá gagnrýnendum og mörgum aðdáendum Die Hard-myndanna. Henni gekk samt vel í miðasölunni, sérstaklega utan N-Ameríku, og halaði samanlagt inn rúmar 300 milljónir dala.