Dennis Farina látinn

farinaDennis Farina, löggan frá Chicago sem gerðist síðar leikari í sjónvarpi og kvikmyndum, er látinn 69 ára að aldri. Hann lést í Arizona í Bandaríkjunum. Banamein hans er sagt hafa verið blóðkökkur í lunga.

Farina er best þekktur fyrir leik sinn í hlutverki rannsóknarlögreglumannsins Joe Fontana í þáttunum Law and Order.

Framleiðandi þáttanna Dick Wolf, sagði í yfirlýsingu: „Mér var brugðið, og ég er mjög sorgmæddur að heyra um andlát Dennis, sem kom mjög á óvart. Law & Order fjölskyldan sendir samúðarkveðjur til fjölskyldu hans. Hann var frábær náungi.“

Farina lék aðalhlutverk í meira en 75 kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en byrjaði ekki að leika fyrr en hann var 37 ára gamall. Hann vann hjá lögreglunni í Chicago í 18 ár áður en hann fékk vinnu í Hollywood sem lögregluráðgjafi fyrir leikstjórann Michael Mann.

Farina lék hin og þessi hlutverk þar til Mann réð hann til að leika mafíósa í Miami Vice sjónvarpsþáttunum. Eftir það lék hann í sjónvarpsþáttunum Crime Series og þá lék hann alríkislögreglumann í Hannibal Lecter myndinnni Manhunter, sem Michael Mann leikstýrði. Í kjölfarið lék hann aðallega mafíósa, löggur, alríkislögreglumenn, eða mjög stífa og ógnvekjandi feður í sjónvarpi og í kvikmyndum.

Meðal kvikmynda sem Farina lék í voru Get Shorty, Snatch og Midnight Run.

Leikarinn lætur eftir sig þrjú uppkomin börn, sex barnabörn og sambýliskonu sína til 35 ára, Marianne Cahill, en þau giftust aldrei.