Þrír stórleikarar í nýrri Linklater-mynd

Steve-Carell-001Stórleikararnir Steve Carell, Bryan Cranston og Laurence Fishburne eiga í nánum viðræðum um að leika í næstu mynd Boyhood leikstjórans Richard Linklater, Last Flag Flying.

Linklater hefur verið með verkefnið lengi í vinnslu, en um er að ræða framhald hinnar sígildu dramatísku gamanmyndar The Last Detail.

bryan cranstonLast Flag kom út á bók eftir Darryl Ponicsan árið 2005, en upphaflega sagan kom út árið 1970, og varð að bíómynd árið 1973 með þeim Jack Nicholson, Randy Quaid og Otis Young í aðalhlutverkum. Myndin var tilnefnd til þriggja Óskarsverðlauna á sínum tíma, og Nicholson fékk BAFTA verðlaunin fyrir leik sinn.

Nokkuð er síðan Linklater talaði um að hann hefði áhuga á að gera mynd eftir bók Ponicsan, eða fljótlega eftir að bókin kom út, árið 2006, en á þeim tíma vildi hann fá þá Nicholson og Quaid aftur til leiks, og láta Morgan Freeman leika hlutverkið sem Otis Young lék, en hann féll frá árið 2001.

Nú virðist Linklater kominn á skrið með verkefnið á ný, en vefsíðan The Hollywood Reporter segir að Amazon Studios framleiði myndina.

fishburneÞetta verður fyrsta verkefnið sem Linklater gerir með myndveitu Amazon, en nýjustu verkefnin úr smiðju hennar eru myndir Woody Allen, Café Society og mynd Nicolas Winding Refn, The Neon Demon. 

The Last Deatail fjallaði um tvo sjóliða, sem Nicholson og Young léku, sem eru fengnir til að færa sakamann, sem Quaid lék, í fangelsi, en ákveða að fara með honum á djammið í síðasta skipti á leiðinni í grjótið.

Í Last Flag Flying eru þremenningarnir mættir aftur, en nú eru aðrir tímar í New York, á árunum eftir 9/11. Sjóliðarnir fyrrverandi koma nú fanganum fyrrverandi til hjálpar, en hann þarf aðstoð við að koma líki sonar síns heim frá Írak.

Tökur eiga að hefjast í nóvember nk.

Carell lék nýlega í hinni Óskarstilnefndu The Big Short og Café Society. Cranson hefur haft nóg að gera síðan hann sló í gegn í Breaking Bad sjónvarpsþáttunum. Það má berja hann augum í bíó á Íslandi um þessar mundir í The Infiltrator, og einnig leikur hann í gamanmyndinni Why Him? ásamt James Franco. Þá er hann væntanlegur á hvíta tjaldið í nýju Power Rangers myndinni á næsta ári.

Fishburne sáum við síðast í Batman v Superman: Dawn of Justice, og væntanleg er Passengers þar sem hann leikur á móti Chris Pratt og Jennifer Lawrence. Þá mun hann leika í John Wick: Chapter Two.