Bond mokar inn milljörðum

Sigurganga nýju James Bond myndarinnar Skyfall heldur áfram, en myndin hefur nú þénað 287 milljónir Bandaríkjadala utan Bandaríkjanna, á fyrstu 10 sýningardögunum, eða 36,5 milljarða íslenskra króna. Myndin, sem leikstýrt er af Sam Mendes, með Daniel Craig í hlutverki ofurnjósnarans, þénaði litlar 157 milljónir dala nú um helgina, en myndin er nú frumsýnd í hverju landinu á fætur öðru.

Velgengni Skyfall þýðir að Sony Pictures Releasing International, sem framleiðir myndina, er búið að slá eigið tekjumet, en fyrirtækið hefur nú þénað 2,16 milljarða Bandaríkjadala á alþjóðavísu á árinu.

Skyfall verður frumsýnd þann 8. nóvember í Bandaríkjunum, og verður spennandi að sjá hvernig Bandaríkjamönnum líkar myndin.