Bardem fær stjörnu

Spænski Óskarsverðlaunahafinn Javier Bardem verður á næstunni heiðraður með stjörnu í Frægðarstétt Hollywood.

Bardem hefur líklega aldrei verið vinsælli en hann leikur hið sturlaða illmenni Silva í nýjustu Bond-myndinni Skyfall, sem hefur hlotið mjög góðar viðtökur.

Þetta verður 2.484. stjarnan sem sett verður í Frægðarstéttina og mun athöfnin eiga sér stað 8. nóvember. Bardem bætist þar með í hóp með löndum sínum, eiginkonunni Penelope Cruz, Antonio Banderas, Placido Domingo og Julio Iglesias, sem öll eiga stjörnu í stéttinni.