Nýjasta
afurð hins einstaka Tim Burton, Alice in Wonderland, lét heldur betur til sín
taka um nýliðna Óskarshelgi í Bandaríkjunum og náði sjöttu stærstu opnunarhelgi
allra tíma þar í landi með massívar 116 milljónir dollara í aðsókn. Var þetta
auk þess langstærsta upphæð sem nokkur mynd hefur náð í marsmánuði frá upphafi
og raunar nokkrum vormánuði. Er þessi upphæð langt fyrir ofan það sem nokkur
hafði gert sér í hugarlund og það langmesta sem Tim Burton hefur nokkurn tíma
afrekað í miðasölunni.
Alice var
meira en 100 milljónum á undan næstu mynd á lista, spennumyndinni Brooklyn’s Finest,
sem skartar gæðaleikurunum Don Cheadle, Richard Gere og Ethan Hawke en er
kannski athyglisverðust fyrir að vera
endurkoma Wesley Snipes í bíó, eftir nokkurra ára „beint-á-DVD“-útlegð.
Fékk sú mynd um 13,5 milljónir, örlitlu meira en Shutter Island, sem varð í
þriðja sæti á sinni þriðju sýningarhelgi. Cop Out var fjórða og Avatar fimmta,
en hún fór í fyrsta sinn niður fyrir 10 milljónir í sinni 12. sýningarviku. Þar
gæti koma Alice í bíó spilað inn í, þar sem sú mynd tók nokkuð marga þrívíddar-
og IMAX-skjái af Pandórubúum. Það er samt magnað að vera ennþá að taka tæpar 8
milljónir eftir næstum þrjá mánuði í bíó.
The Crazies náði sjötta sætinu, Percy Jackson & the Olympians: The Lightning Thief varð í því sjöunda og Valentine’s Day
endaði í því áttunda. Crazy Heart, sem vann tvenn Óskarsverðlaun á
sunnudagskvöld, annars vegar fyrir besta lag og hins vegar fyrir besta
aðalleikara, Jeff Bridges, hækkaði sig á milli vikna og fór í níunda sætið, á
meðan Dear John hafði rétt svo betur en Tooth Fairy í tíunda sætinu.
Um næstu
helgi munu svo fjórar nýjar myndir koma í 1500 bíó eða fleiri hver. Fyrsta skal
telja stríðsmyndina Green Zone, svo gamanmyndirnar Our Family Wedding og She’s Out of My League og að lokum dramamyndina Remember Me.
Haldið þið að einhver
þessarra mynda eigi séns í Lísu?

