Unforgiven verður Samuræjamynd – Ný stikla

Í september nk. er von á japanskri endurgerð á Óskarsverðlaunavestranum Unforgiven sem Clint Eastwood leikstýrði upphaflega. Endurgerðina gerir leikstjórinn Lee Sang-il og aðalhlutverkið leikur  hinn þekkti japanski leikari Ken Watanabe, sem var tilnefndur til Óskarsverðlauna árið 2003, fyrir leik sinn í myndinni The Last Samurai.

Nú er komin stikla í fullri lengd fyrir myndina, sem hægt er að sjá hér fyrir neðan:

Myndin gerist á sama tímabili í mannkynssögunni og upprunalega myndin, eða uppúr 1880. Myndinni hefur verið breytt í sögu af samúræja stríðsmanni, en vestrar og samurai myndir eiga ýmislegt sameiginlegt, en algengara hefur verið að vestrar séu gerðir eftir Samurai myndum, en að samurai myndir séu gerðar eftir vestrum.

Myndin fjallar um Samurai stríðsmann vopnaðan sverði sem tekur að sér að elta uppi mann og drepa gegn gjaldi ( í upprunalegu myndinni var Clint Eastwood í þessu hlutverki, en þá var hann byssumaður ).
Myndin gerist í norður hluta Japans, á eyjunni Hokkaido, á níunda áratug 19. aldarinnar, en þetta var á þeim tíma þegar japanskir landnemar voru að setjast að á landi hins innfædda Ainu fólks.
Samuræjinn, sem er sestur í helgan stein en á sér blóði drifna sögu, býr nú með eiginkonu sinni af Ainu ætt, þegar bæði fjárþörf og gott tilboð um að elta uppi mann, banka á dyrnar hjá honum.

Unforgiven3-620x445

Endurgerðin heitir á japönsku Yurusarezaru Mono.

Myndin verður frumsýnd á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum frá og með september nk.

Hér fyrir neðan er svo skemmtilegur samanburður á plakötum frummyndarinnar og eftirmyndarinnar:

unforgivenposters-620x449