Whedon tekur Avengers 2 að sér!

En ekki hvað? Annað væri móðgun við mannkynið, eða a.m.k. stórt samfélag af fallegum nördum.
Undirritaður á ennþá eftir að hitta einhvern sem tilheyrir rétta markhópnum sem hefur eitthvað almennilega slæmt að segja um The Avengers. Joss Whedon, með skarpa handriti sínu og öruggu leikstjórn, gerði akkúrat það sem var ætlast til af honum. Og pressan var nú ágætlega mikil fyrirfram.

Whedon étur hins vegar pressu í morgunmat og skilur eftir afganga til að narta í í hádeginu. Nú þegar hann er búinn að skrifa undir samning til að skrifa og leikstýra The Avengers 2 (sem gæti komið til með að heita eitthvað annað) stækkar pressan ennþá meira og verður forvitnilegt að sjá hvort hann nái að toppa sig – eða hvernig.

Fréttirnar koma væntanlega engum á óvart en þær eru engu að síður hughreystandi þegar maður veit að þessi snillingur er ekkert að fara neitt. Annars ættu einhverjir að muna eftir því sem Whedon sagðist vera að spá í með framhaldið fyrir nokkrum mánuðum síðan, þegar hann sagðist vilja helst reyna ekki að þrepa sig of mikið upp í stærð, heldur í staðinn búa til myrka og persónudrifna sögu.

Tekið úr þessari frétt:

Whedon var spurður í viðtali við tímaritið SFX hvernig planið væri síðan að toppa þessa massastóru mynd og svarið hans kom skemmtilega á óvart:
„Með því að reyna að gera það ekki…“ svaraði Whedon. „Það er ómögulegt að gera eitthvað stærra, og þess vegna langar mig til að gera eitthvað talsvert minna, en samt miklu persónulegra og sársaukafyllra. Ég vil ekki endurvinna sömu formúluna og við vorum að nota heldur einblína betur á þessar persónur á miklu athyglisverðari og dekkri máta. Gera eitthvað ferskt og mannlegt.“

Sjáum svo hvort hann heldur sig við þessa stefnu eða gerir það sem flestir stórmyndaleikstjórar myndu gera: Fá meiri pening og sprengja upp fleira dót.

Bestu fréttirnar eru samt ekki bara þær að Whedon er að leikstýra framhaldsmyndinni, heldur er ofurnördið í rauninni að stýra öllum Marvel-bíóheiminum og fær eflaust að hafa sín áhrif á þær myndir sem eru í þróun um þessar mundir (þ.á.m. Guardians of the Galaxy). „Phase 1“ stiginu hjá Marvel-stúdíóinu lauk með Avengers-veislunni og mun framhaldsmyndin væntanlega marka lokin á „Phase 2.“ Whedon myndi væntanlega ekki vera sáttur með handritsstigið á Avengers 2 nema sjálfstæðu sögurnar byggi góðan fyrir það sem hann hefur í huga.

Er nokkuð slæmt hægt að segja við þessu? Fyrri myndin græddi óhuggulega mikið af seðlum, sem þýðir að framleiðendur eru vægast sagt ánægðir. Aðdáendur eru klárlega ánægðir. Hvert er vandamálið?

Aukaspurning: Whedon hefur viðurkennt að honum þykir örlítið meira vænt um Hulk í hópnum heldur en hina. Það er erfitt að neita því að þau merki hafi sýnt sig töluvert í myndinni. En ætli það endurtaki sig?