VIP bíóhús býður gestum upp í rúm fyrir sex þúsund kall

Eins og bíógestir vita, eru sætin í kvikmyndahúsum misþægileg, og ekki bætir úr skák ef maður er hærri en meðalmaðurinn.

Eins gott að byrja ekki að hrjóta!

Mörg bíóhús, meðal annars hér á landi, hafa lagt síaukna áherslu á þægindi í salnum, þó svo að salirnir taki þá færri sæti. Þau telja líklega betra að hafa færri ánægða gesti en fleiri sem líður ekki nógu vel í sætum sínum.

Eitt kvikmyndahús í Sviss, hefur tekið þetta upp á annað stig, með því að skipta sætunum í bíósalnum út fyrir tvíbreið rúm, þannig að maður getur kúrað og knúsað félagann, meðan á sýningu myndarinnar stendur.

Cinema Pathé í Sviss opnaði sinn svokallaða “VIP bedroom” sal fyrr á þessu ári, og það ætti því ekki að væsa um bíógesti sem koma að sjá jólamyndina þessi jólin.

Bíóið lýsir reynslunni þannig að þetta sé eins og að horfa á bíómynd heima hjá sér. Í salnum eru ellefu rúm, með höfuðstæði sem hægt er hækka og að laga að hverjum og einum. Með rúmunum fylgja lök og sængur, koddar og lítið borð til hliðar þar sem hægt er að leggja frá sér drykkjarföng og aðrar veitingar.

Miðinn í dýrðina kostar jafnvirði 48,50 Bandaríkjadala, eða jafnvirði tæpra sex þúsund íslenskra króna, samtals fyrir þig og félagann. Í VIP pakkanum fylgir að þú færð fríar veitingar og drykki til þín í rúmið. Þá færðu inniskó, til að gera þetta nú enn notalegra.

Ef þér líst ekki á að nota rúm sem einhver annar er nýbúinn að liggja í, þá segir Venanzio Di Bacco, forstjóri bíóhússins, að hreinlætismál séu tekin mjög alvarlega, og ekkert sé upp á það að klaga.