Vinsælir einkaþjálfarar sem fremja glæp

Nýjasta mynd Michael Bay, Pain & Gain, með þeim Mark Wahlberg, Dwayne Johnson og Anthony Mackie í aðahlutverkum, var aðsóknarmesta bíómyndin í Bandaríkjunum nú á föstudaginn. Myndin fjallar um ótrúlega sögu sem gerðist árið 1999 í Miami í Bandaríkjunum þegar þrír einkaþjálfarar sem eru að reyna að upplifa ameríska drauminn, taka þátt í glæpsamlegu athæfi sem fer illilega úrskeiðis.

Myndin þénaði 7 milljónir Bandaríkjadala og stefnir í 20,5 milljónir dala yfir alla helgina. Þetta væri ekki mikið fyrir stórmyndirnar sem Bay er hvað þekktastur fyrir, eins og Transformers myndirnar til dæmis, en þar sem Pain & Gain kostaði margfalt minna í framleiðslu en þær myndir, telst þessi árangur góður.

Myndin stefnir í að standa sig betur á frumsýningarhelgi sinni en menn höfðu vonast eftir, og mun betur en síðasta mynd Dwayne Johnson, Snitch, en hún þénaði 13,1 milljón dala á frumsýningarhelgi sinni. Einnig er þetta betri árangur en síðasta mynd Mark Wahlberg náði, Broken City, en hún þénaði 8,2 milljónir dala á sinni fyrstu helgi í sýningum.

Pain & Gain er lang ódýrasta mynd Michael Bay síðan hann gerði Bad Boys árið 1995, og kostaði „aðeins“ 26 milljónir dala.

Tom Cruise myndin Oblivion datt niður í annað sætið þessa helgina, en myndin var sú vinsælasta um síðustu helgi í Bandaríkjunum. Myndin þénaði 5,2 milljónir dala á föstudaginn og stefnir í 16,8 milljónir dala yfir alla helgina.

Hin nýja mynd helgarinnar, hin stjörnum prýdda gamanmynd The Big Wedding, náði fjórða sæti aðsóknarlistans með 2,6 milljónir dala í tekjur og stefnir í 8 milljónir dala yfir alla helgina.