Vin Diesel talar um þriðju Riddick-myndina

Harðjaxlinn Vin Diesel hefur margoft sagt að Riddick-myndirnar séu honum kærar og er hann þess vegna yfir sig spenntur að sjá það að framleiðslan á þeirri þriðju sé komin langt á leið. Diesel, sem er einnig framleiðandi myndarinnar, tjáði sig á dögunum um teikningarnar sem hann sá fyrir ,,ónefndu Riddick-framhaldsmyndina“ og var heldur betur sáttur.

„Á meðan og ég og David [Twohy – leikstjórinn] vorum að skoða teikningarnar og útlitshönnunina á veröldinni, og stílinn, var ég hreinlega að missa mig,“ segir Diesel. „Ég dýrka að sjá hönnunarhugmyndir sem mér líst vel á. Ég er eins og barn í nammibúð.“ Diesel segist einnig hafa séð ókláraðar tölvubrelluprufur og missti alveg kjálkann. Að lokum bætir hann svo við að hann er Universal-stúdíóinu afar þakklátur fyrir að þora að taka sénsinn á myndinni með því að leyfa henni að bera R-aldursstimpilinn (þ.e. bönnuð innan 17 ára í BNA). Aðdáendur ættu ekki síður að vera glaðir.

Tökur á myndinni hefjast fljótlega í Kanada, þar sem meirihluti myndarinnar Chronicles of Riddick var einnig tekinn upp.