Verðum að vinna í hárgreiðslunni

Leikstjórinn Mike Newell, sem mun leikstýra myndinni Reykjavik, sem fjallar um leiðtogafund þeirra Mikhail Gorbachev leiðtoga Sovétríkjanna, og Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna, í Höfða í Reykjavík árið 1986, býst við að byrja að vinna með aðalleikurunum Cristoph Waltz og Michael Douglas seint í desember nk. eða snemma á næsta ári. Douglas leikur Reagan, og Waltz leikur Gorbachev. „Við verðum að byrja að vinna í hárgreiðslunni,“ segir leikstjórinn um förðunarvinnuna sem er framundan, „af því að Reagan var mjög passasamur með hárið á sér – og svo er það auðvitað skallinn og fæðingarbletturinn [ á skallanum ] hjá Gorbachev.

Newell segir að myndin sé um sigur mannsandans. „Þetta er saga um það þegar menn ná tengslum mitt í einhverri auðn þar sem það á ekki að vera hægt,“ segir Newell í samtali við Empire kvikmyndaritið, „en andstætt öllum lögmálum, þá næst samband. Þetta er sigur mannsandans.“

Newell lýsir myndinni sem sögu upphafsins á enda kalda stríðsins, þar sem austrið og vestrið mættust, og örlög heimsins réðust.

Í fréttinni segir að myndin verði tekin í Reykjavík á næsta ári, sem og í kvikmyndaverinu Babelsberg í Potsdam í Þýskalandi.