Vélmenni, kubbar og kynlíf

Það verður nóg um að vera í kvikmyndahúsum landsins um helgina og ættu allir að geta fundið sér mynd við sitt hæfi. Kubbarnir eignast líf í kvikmyndinni Lego The Movie og endurgerðin af Robocop lofar góðu. Christian Bale sýnir svo stórleik í kvikmyndinni Out of the Furnace og svo má ekki gleyma hinni kynferðislegu Nymphomaniac eftir Lars Von Trier. Allar þessar kvikmyndir verða frumsýndar á föstudaginn næstkomandi.

frumsyningar

Lego The Movie (Sambíóin Álfabakka, Kringlunni, Egilshöll, Keflavík og Akureyri. Smárabíó, Laugarásbíó, Ísafjarðarbíó, Selfossbíó og Bíóhöllin Akranesi.)

The Lego Movie er gerð af húmoristunum Phil Lord og Chris Miller sem gerðu m.a. 21 Jump Street og teiknimyndasmellinn Cloudy With a Chance of Meatballs. Myndin, sem er blanda af tölvugrafík og „stopmotion“-tækni hefur notið fádæma vinsælda og er t.a.m. lang vinsælasta myndin í USA í dag.

Out Of The Furnace (Sambíóin Álfabakka, Kringlunni, Egilshöll, Keflavík og Akureyri)

Þegar Rodney Baze hverfur sporlaust og lögreglan segist ekkert geta gert ákveður eldri bróðir hans, Russell, að komast að því hvað gerðist og knýja fram réttlæti upp á eigin spýtur.

Out of the Furnace er önnur mynd leikstjórans Scotts Cooper sem sendi frá sér hina margverðlaunuðu mynd Crazy Heart árið 2009, en hún hlaut m.a. þrjár tilnefningar til Óskarsverðlauna og færði aðalleikaranum Jeff Bridges styttuna góðu fyrir besta leik í aðalhlutverki karla. Scott skrifar hér einnig handritið ásamt Brad Inglesby og í aðalhlutverkum er stór hópur kunnra gæðaleikara með þeim Christian Bale, Casey Affleck, Woody Harrelson, Zoe Saldana, Willem Dafoe, Sam Shepard og Forest Whitaker fremstum í flokki.

Robocop (Laugarásbíó, Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri)

Robocop er endurgerð á samnefndri mynd frá árinu 1987 og hefur fengið gríðarlega góða dóma. Eins og gefur að skilja verður þessi útgáfa tæknivæddari en sú gamla en það er hinn lítt þekkti José Padilha sem leikstýrir endurgerðinni. Með aðalhlutverk í kvikmyndinni fara Joel Kinnaman, Gary Oldman, Michael Keaton, Samuel L. Jackson og Abbie Cornish.

Árið er 2028 og fyrirtækið OmniCorp er í fararbroddi í framleiðslu vélmenna. Fyrirtækið hefur grætt háar upphæðir á notkun vélmenna sinna í hernaði erlendis, en nú beinir OmniCorp sjónum sínum að innlendum markaði. Þeir sjá kjörið tækifæri þegar lögreglumaðurinn Alex Murphy (Joel Kinnaman) slasast lífshættulega við skyldustörf. OmniCorp notar Murphy til að búa til löggæsluvélmenni sem er maður að hálfu og vélmenni að hálfu. Fyrirtækið sér í hillingum að slík vélmenni verði notuð í öllum borgum Bandaríkjanna og skili mörgum milljörðum í hagnað fyrir hluthafa fyrirtækisins. En OmniCorp gerði ekki ráð fyrir því að það yrði ennþá maður í vélinni sem héldi áfram að leita réttlætis.

Nymphomaniac (Háskólabíó, Borgarbíó)

Kvikmyndin er villt og ljóðræn frásögn af erótísku ferðalagi kynlífsfíkilsins Joe (Charlotte Gainsbourg) frá fæðingu til fimmtugs. Eitt kalt vetrarkvöld finnur Seligman (Stellan Skarsgård), sem er gamall og heillandi piparsveinn, Joe illa farna eftir árás í húsasundi. Hann fer með hana heim í íbúðina sína og gerir að sárum hennar á meðan hann spyr hana um hagi hennar. Hann hlustar áhugasamur á meðan Joe þylur upp marglaga atburðarás ævi sinnar, sem er vægast sagt ótrúleg.

Kvikmyndin er myrk og drungaleg, hana einkennir hugkvæmni – en ekki síður tilviljanir sem reka á fjörur persónanna. Aukaleikarar styðja ljómandi vel við atburðarásina; allt frá hinum órólega Shia LaBeouf og rafmögnuðu Umu Thurman til Jamie Bell, sem leikur lítinn og snyrtilegan sadista.

Nymphomaniac er síðasta myndin í þunglyndisþríleik leikstjórans Lars von Trier, en fyrri myndirnar eru hin umdeilda Antichrist og átakanlega Melancholia.