Vanmetnustu/ofmetnustu myndir ársins

Dagarnir fyrir og eftir áramótin eru oftast mjög pakkaðir hjá okkur sem skrifa fyrir kvikmyndatengdan fjölmiðil, en þess vegna reynir maður að nýta þá eins vel og maður getur með því að búa til flottar samantektir yfir bíóárið sem er að baki.

Að þessu sinni datt mér enn og aftur í hug að kafa aðeins meira út í mainstream-kvikmyndagerð og fara yfir það sem mér fannst fá alltof mikinn skell á sig sem og það sem fékk skilyrðislausa (og, að mínu mati, óskiljanlega) dýrkun.

Það er nokkuð sérstök tilfinning þegar manni finnst eitthvað vera ofmetið. Það þýðir að þú sérð ekki alveg sömu snilldina og allir aðrir. Kannski hafa þeir betra vit heldur en þú, kannski ert þú bara með margfalt betra vit heldur en meirihlutinn, eða kannski er bara smekkur manna svona einkennilega misjafn og það vildi bara þannig til að þú dast í minnihlutann. Þetta síðasta er hins vegar leiðinlegasta pælingin.

Vanmetnar myndir eru að vísu þær sem gagnrýnendur eða áhorfendur þoldu ekki eða sýndu engan áhuga, þegar þær reyndu miklu meira á sig heldur en fólk gaf þeim kredit fyrir. Vissulega er það líka smekksatriði varðandi nákvæmlega hvað er vanmetið og hvers vegna. Stundum eru hlutir samt á undan sinni samtíð og kannski batna þeir með árunum. Fyrir þá sem ekki vita, þá var til dæmis ekki tekið neitt sérstaklega vel í Fear & Loathing eða Space Odyssey þegar þær komu fyrst út. Og hvar eru þessar myndir í dag?? Nú venjulega í sterku uppáhaldi hjá nördum eins og sjálfum mér.

Ég vona að mér sé að takast að trekkja ykkur aðeins upp. En listar eru til þess að hafa gaman af og vonandi kveikja þeir góðan eld í umræðum þar sem fólk er annaðhvort sammála þér eða ekki. Til þess er hobbýið, og varla er hægt að pirra fólk jafnmikið og að segja að eitthvað sem meirihlutinn elskaði hafi ekki átt athyglina skilið. Það getur verið rosalega gaman að pirra fólk en líka finnst mér gaman að verja lítilmagnanna og berjast fyrir réttindum þeirra sem eiga betra skilið. Þess vegna bjó ég til enn einn listann, sem sýnir:

.:5 VANMETNUSTU HOLLYWOOD-MYNDIR ÁRSINS 2011:.
(af hverju voru þessar svona hataðar??)

5. The Thing
(Rotten Tomatoes: 35%)

Ég skil það vel að nánast enginn var spenntur fyrir þessari mynd enda héldu margir að þetta væri enn eina cash-grab endurgerðin sem gerir ekkert nema að bæta við nýjum brellum og ódýrum bregðum.

Að vissu leyti mætti alveg kalla þetta óbeina endurgerð, því dettur hún stundum í þá gryfju að endurskapa klassískar senur úr John Carpenter-myndinni. Hins vegar er miklu meiri umhyggja á bakvið gerð hennar heldur en virðist vera í fyrstu. Leikstjórinn gerir sitt besta til að sjá til þess að þessi „forsaga“ smelli þokkalega saman við gömlu myndina þannig að hægt sé að horfa á þær í einum rykk. Það er – sem betur fer – hægt og það kemur alls ekkert illa út. Endirinn á 2011-myndinni gaf mér meira að segja svolitla gæsahúð vegna þess að hann flytur mann beint inn í frummyndina án þess að það komi alveg upp úr þurru, og ég elska frummyndina meira heldur en hægri höndina mína.

4. Scre4m
(RT: 58%)

Tilgangslaust framhald, að sjálfsögðu, en frekar er þetta myndin til að ljúka seríunni á heldur en Scream 3. Ég hataði þá mynd svo grimmt og í samanburði lítur fjórða myndin út eins og Behind the Mask (ef þið hafið ekki séð þá perlu, kippið því í lag Í DAG!). Myndina skortir spennuna sem einkenndi fyrstu tvær en hún hefur (meta-)húmorinn og skemmtanagildið og það skiptir andskoti miklu. Og fyrir utan bótoxuðu varirnar á Courtney Cox, þá var bara mjög hressandi að sjá gömlu persónurnar aftur eftir allan þennan tíma.

Ég er samt feginn að myndinni gekk ekkert alltof vel í miðasölunni. Það hefði þýtt eitt: 5cream!

3. Hall Pass
(RT: 35%)

Enn og aftur, þá skil ég það að fólk hafi ekki verið alltof spennt fyrir þessari. Ég meira að segja gaf skít í hana óviljandi og ætlaði semsagt alltaf að sjá hana í bíó en gerði það ekki á endanum. Engin spes ástæða. Mér fannst ég bara ekki vera að missa af miklu. Farrelly-bræður höfðu heldur ekki gert góða mynd í meira en áratug.

Svo sá ég hana loksins á vídeói og fannst hún satt að segja bara lúmskt fyndin, nokkuð fersk og helvíti skemmtileg. Söguþráðurinn er góður og atburðarásin kemur talsvert meira á óvart heldur en maður býst við. Maður veit auðvitað hvert myndin stefnir og hvaða boðskap hún geymir í erminni en engu að síður er hún skuggalega vanmetin svo ekki sé minnst á það að grófi húmorinn er mátulega mildur og sparlegur. Myndin er ekki að bomba framan í þig smekkleysu bara til að finna sér eitthvað til að gera, eins og t.d. The Change-Up gerði.

Leikararnir eru líka sumir alveg dásemd. Jason Sudekis komst opinberlega á kortið hjá mér eftir þetta ár (hann stal brilleraði í þessari, Horrible Bosses og A Good Old Fashioned Orgy) og Stephen Merchant stelur gjörsamlega senunni.

2. Cowboys & Aliens
(RT: 44%)

Fínasti vestri í bland við „meh“ sci-fi mynd. Myndin fékk rosalega mikið diss (meira að segja frá einum framleiðandanum) vegna þess að mörgum fannst hún taka sig alltof alvarlega og voru ekki nógu ánægðir með afþreyingargildið. Ég fékk hins vegar nákvæmlega það sem ég borgaði (ekki) fyrir: Mynd um harða kúreka að elta og að lokum reyna að drepa ljótar geimverur.

Daniel Craig var hellað svalur sem klassíski kúrekinn með minnisleysið. Harrison Ford var jafnvel undarlega góður í ábyggilega sínu besta hlutverki síðan Air Force One (ætli mér sé alvara þarna?). Annars vissi Jon Favreau alveg hvað hann var að gera og þótt handritið hafi ekki verið neitt framúrskarandi þá var myndin langt frá því að vera tímasóun að mínu mati.


(Ég varð! Þetta er urrandi snilld)

1. The Green Hornet
(RT: 44% – Top Critics: 21%)

Ókei, þetta er engin Kick-Ass, en það er með ólíkindum hvað margir þoldu ekki þessa fínustu spennugamanmynd. Seth Rogen tók sig aldrei alvarlega, og í þessu tilfelli kunni ég að meta það. Ímyndið ykkur ef hann hefði reynt að leika karakter sem hefði aldrei hentað honum og í stað þess að pína bæði sjálfan sig og áhorfandann gerir hann sér grein fyrir takmörkuðu leikhæfileikum sínum og gerði bara það sem hann gerir best: að leika vonlausan aula sem er viðkunnanlegur innst inni. Helsti munurinn á persónu hans í þessari og Judd Apatow-myndunum er allt grasið sem er reykt.

Samspil Rogens við Jay Chou var líka skothelt, enda skemmtilega ólíkir menn og þegar kemur að slagsmálum er Chou á meðal svölustu karaktera ársins. Christoph Waltz var pínu skemmtilegur sem óörugga illmennið og ég skal hundur heita ef Michel Gondry tókst ekki bara þokkalega að útfæra klikkaðar hasarsenur með smá stílkryddi við og við.

Verst samt hvað Cameron Diaz var tilgangslaus. Hún þvældist í rauninni bara fyrir. En þar sem þetta er Hollywood-mynd þarf auðvitað að vera að minnsta kosti ein pía í stóru aukahlutverki svo stelpur eigi eitthvað erindi inn á myndina líka. Þannig er a.m.k. einkennilega hugsunin á bakvið þessa markaðsfræði. Voða brenglað.

„Runner-up:“

Limitless

Fersk, hröð, stílísk, „trippy“ og með skemmtilegan ryþma. Handritið er ansi mikil steypa og stundum götótt (kannski fullmikið fyrir gagnrýnendur) en Bradley Cooper ber sig eins og fagmaður og heldur myndinni á floti einn og sér. Það hefðu alveg fleiri mátt sjá þessa. Hún kom mér hressilega á óvart.

 

Og síðan…


.:5 OFMETNUSTU HOLLYWOOD-MYNDIR ÁRSINS 2011:.
(eru sumir að verða geðveikir?)

 

5. Rango

Útlit er alls ekki allt, og þrátt fyrir að Rango sé með öllum líkindum flottasta teiknimynd sem ég hef séð síðan Zack Snyder gerði ofsalega óspennandi uglumynd árið áður, þá er hún ekki beint að rokka í afþreyingargildinu. Ég diggaði það hvað myndin var steikt og hæg (a.m.k. miðað við flestar fjölskyldumyndir) en um leið og söguþráður var byrjaður að myndast, þá sá maður að þetta var bara hundgamalt efni í flottum búningi. Þetta er lítið annað en skriðdýraútgáfan af Chinatown. Persónurnar voru litlausar og heldur leiðinlegar og manni fannst alltaf eins og það vantaði meiri húmor. Helst vil ég skemmta mér og dást að útlitinu í þokkabót, frekar en að slefa yfir grafíkinni og vonast eftir að eitthvað skemmtilegt gerist.

4. Tree of Life

Þessar 130 mínútur líða eins og fjórir tímar.

Því verður aldrei neitað að The Tree ofLife sé einstök mynd og án efa sú fallegasta á öllu árinu. Kvikmyndatakan ein og sér er skuggalega dáleiðandi og það er bara svo ótal margt við þessa sérkennilegu óreiðu sem hægt er að elska. Hins vegar mun ég aldrei skilja hvers vegna þessi mynd er talin ein sú besta sem hefur komið út síðustu áratugi. Í mínum augum er hún eins og allar aðrar Terrence Malick-myndir (vönduð, langdregin, grunn en með fullt af djúpum skilaboðum), bara aðeins meira abstrakt. Hún stýrist hún minna af frásögn og meira af sjónrænu rúnki (ásamt meðfylgjandi klassískri tónlist).

Malick er ekki einu sinni að reyna að búa til bíómynd, og ekki einu sinni kvikmynd (já, það er munur), heldur ljóðrænan, tilfinningaríkan hrærigraut af minningum persóna og symbolisma, og er lokaafraksturinn látinn vera viljandi óljós svo þú getir fyllt í eyðurnar með eigin persónulegu túlkunum.  Listaspírur (og sérstaklega þeir sem hata vestræna kvikmyndagerð) geta slegist um það að hafa séð ýmislegt í myndinni sem aðrir vinir sínir sáu ekki, en hægt er í raun að túlka hvað sem er úr myndefni sem gerir svona artý hluti. Sjálfur er ég viss um að ef ég hugsi nógu djúpt um seríu af skotum og hvað þau þýða, þá get ég alveg eins horft á David Attenborough-þætti í bútum og myndað mér einhverja ofsalega djúpa samantekt um lífið og tilveruna.

Og já! Hvaða rök hefur leikstjórinn svosem fyrir því að byggja endinn í kringum manneskju sem er leikin af manni í upplýstu cameo-hlutverki?

Góð mynd, klárlega, en Drive og Warrior eiga að hlæja beint í smettið á henni þegar hún reynir að koma sér á sama stall og þær.

3. The Adjustment Bureau

Ekki bara fannst mörgum þessi vera fantagóð heldur græddi hún miklu meira heldur en sumir áttu von á. Kannski er það vegna þess að þetta er í rauninni rómantísk stelpumynd dulbúin sem sci-fi þriller.

Ég held að það sé ekki hægt að búa til mynd eftir (smá)sögu Philips K. Dick án þess að hún verði EITTHVAÐ áhugaverð, og hingað til hafa þær allar verið athyglisverðar á einhvern máta en ekki endilega allar góðar. The Adjustment Bureau fær hiklaust einhverja vildarpunkta fyrir að vera örlítið spennandi og hlaðin ýmsum skemmtilegum hugmyndum. Með öðruvísi leikstjórn og smá yfirferð á handritið hefði þessi mynd getað náð aðdáunarverðum hæðum en tónn myndarinnar er algjörlega rangur, sem gerir myndina meira kjánalega heldur en dularfulla, og atburðarásin fer svo mikið úr böndunum þegar lengra líður á söguna að maður er allan tímann fastur á hliðarlínunni í stað þess að vera þátttakandi í því sem er að gerast.

Stundum koma kaflar sem verða svo óspennandi að manni byrjar að leiðast og svo eru ýmsar senur sem eiga að vera spennandi og alvarlegar en verða bara óviljandi skondnar. George Nolfi, sem er handritshöfundur sem prufar að leikstýra í fyrsta sinn,reynir að sækjast eftir einhvers konar retró-noir stíl sem kemst bara ekki almennilega til skila. Tónlistin eftir Thomas Newman er líka ferlega dæmigerð og stundum aðeins of niðurdrepandi.

2. Okkar eigin Osló (augljóslega ekki Hollywood-mynd, en ég vildi ekki sleppa henni)

Þetta átti alveg örugglega að vera gamanmynd, er það ekki? Þannig var hún allavega auglýst. Kannski fékk ég gallað eintak af myndinni í mínum sýningarsal en það sem ég sá var mjög sjaldan kætandi eða fyndið.

Okkar eigin Osló vill vera fyndin, dramatísk og heillandi „fílgúdd“ mynd, en hún er það bara alls ekki. Ef svona grautþunn gamanmynd á að virka þá þarf hún að halda manni reglulega brosandi, svo ekki sé minnst á það að bjóða upp á persónur sem eru jafn skemmtilegar og þær eru fjölbreyttar og furðulegar. Hún reynir bara alltof mikið á sig til að vera fyndin á köflum og stundum líður svo langt á milli brandaratilrauna að manni líður eins og hún sé bara ekki að reyna neitt. Mér fannst ekki einn einasti karakter hér vera athyglisverður eða viðkunnanlegur. Þorsteinn Guðmunds vill vel en það er takmarkað hversu lengi er hægt að horfa á svona aumingjalegan karakter vaða stanslaust yfir sig. Breytingin hans í lokin er ótrúverðug og lausnin hans við vandamálunum kom alveg upp úr þurru og kom út eins og asnaleg handritsredding.

Að horfa á þessa mynd er álíka vandræðalegt og að eyða heilli bústaðarferð með fólki sem er svo félagslega mismunandi að það á bara ekki heima undir sama þaki, og þar af leiðandi er samveran bara afskaplega þvinguð og óþægileg. Kannski var þetta allt fyndið á blaði. Hvað segir það þá um leikstjórann?

1. Rise of the Planet of the Apes

Hvernig getur mynd með svona þurri, kraftlausri (ójá) og týpískri prequel uppskrift verið álitin ein af albestu myndum sumarsins/ársins?

Ég neita því ekki að Andy Serkis eigi næstum því skilið gullstyttu fyrir frammistöðu sína sem óheppni apinn Caesar, en þrátt fyrir einn góðan karakter verður sagan í kringum hann aldrei nógu grípandi eða hvað þá eftirminnileg. Vandinn liggur aðallega í leikstjórninni og aukaleikurunum (mínus John Lithgow – hann var góður). James Franco sefur alveg í gegnum sína rullu, Freida Pinto er sama og gagnslaus og Tom Felton sýndi hvað myndi gerast ef Draco Malfoy flytti til bandaríkjanna og byrjaði að vinna í dýragarði. Engin leiktilþrif þar eða alvöru rulla, bara stereótýpa hrekkjusvínsins. Charlton Heston-kvótið hans var vandræðalegra og þvingaðra heldur en allt annað á þessum tveimur klukkutímum.

Málið er ekki flóknara en að ég held að ég hafi bara séð allt, allt aðra mynd en þið. Ég gnísti tönnum yfir senum sem allir aðrir sögðu að hefðu verið svo sterkar og óvæntar og sé ómögulega hvað gerði þessa prequel-mynd svona miklu öflugri og minnisstæðari heldur en t.d. X-Men: First Class. HÚN er miklu nær því að vera hágæðaefni.

„Runner-up:“

Real Steel

Kannski fóru allir bara á hana með væntingar á gólfinu en að mínu mati fékk þessi alltof mikið af kurteisislegu hrósi. Sagan er hæg og útteygð formúla út í gegn og þrátt fyrir góðar brellur og fín slagsmál þá er fátt sem réttlætir eitthvað sterkara en vídeómeðmæli í besta falli.

Komið nú með ykkar feedback.
Voru einhverjar myndir sem þú sást sem virkaði ekki á þig en allir vinirnir elskuðu? Eða öfugt?