Vanmetinn veirutryllir; Warning Sign

Margir eru í stuði fyrir myndir sem innihalda veirur, einangrun og ótta í massavís þessa dagana. Myndir eins og „Contagion“ (2011) og „Outbreak“ (1995) fá mikla upprifjun og það er alltaf gott að sökkva sér í skáldskap á óvissutímum jafnvel þó umfjöllunarefnið komist óþægilega nálægt raunveruleikanum. Ein slík sem alla jafna hefur ekki komist á listann yfir þær mest eftirsóttu er hin vanmetna og í raun lítt þekkta „Warning Sign“ (1985).

Veira losnar úr læðingi

Landbúnarverksmiðjan BioTek Agronomics er í raun og veru rannsóknarstofa á vegum stjórnvalda sem vinnur að því að þróa efnavopn. Vísindamaðurinn Dr. Nielsen (Richard Dysart) er búinn að leggja lokahöndina á hættulega veiru sem mun reynast vel ef Sovétmenn hrinda einhvern tímann af stað efnavopnaárás á landið. Dag einn á rannsóknarstofunni missir hann óvart tilraunaglas á gólfið og starfsmannastjórinn Tom Schmidt (G.W. Bailey) brýtur það óafvitandi þegar allir eru án hlífðarfatnaðar. Nemar á staðnum hrinda af stað viðvörunarbjöllum og öryggisvörðurinn Joanie (Kathleen Quinlan) ýtir á neyðarhnapp sem lokar bygginguna af og enginn kemst út. Rétt áður en atvikið kom upp var hún í símanum að tala við unnusta sinn, lögreglustjórann Cal (Sam Waterstone), og heldur hann beint á vettvang.

Fólkið á vinnustaðnum verður stressað og smám saman myndast alger múgæsingur. Á sama tíma mæta menn frá hinu opinbera með hinn ábúðarfulla Major Connolly (Yaphet Kotto) í fararbroddi. Hann sannfærir ættingja þeirra sem eru lokaðir inni sem og aðra bæjarbúa um að minniháttar slys hafi átt sér stað en til öryggis þurfa allir innandyra að vera einangraðir frá öðrum. Hann tjáir Cal aftur á móti hið sanna að hættuleg veira hafi losnað úr læðingi og vænta megi þess versta. Það kemur á daginn þegar í ljós kemur að Dr. Nielsen og aðstoðarmenn hans liggja látnir á gólfi rannsóknarstofunnar.

Cal leitar þá uppi Dr. Dan Fairchild (Jeffrey DeMunn), fyrrverandi starfsmann BioTek, sem segist hafa hannað mótefni sem gæti unnið gegn sýkingunni. Hermenn halda svo inn í bygginguna og sjá að Dr. Nielsen og aðstoðarmenn hans voru svo ekki látnir heldur eru þeir í morðham og ráðast þeir að þeim með öxi á lofti. Sýkingin náði einnig út fyrir rannsóknarstofuna og fleiri innan BioTek eru sýktir og Joanie, sem ekki er sýkt einhverra hluta vegna, er í bráðri lífshættu.

Sýktir verða morðóðir

„Warning Sign“ sló ekki í gegn í miðasölu á sínum tíma og er með 11% hjá Rotten Tomatoes. Hún bara kom og fór en náði ágætis útbreiðslu á VHS og hefur smám saman öðlast töluverðan költ „status“. Ágætis sala á DVD leiddi að lokum til góðrar útgáfu á Blu-ray þannig að unnendur geta notið myndarinnar í fínum gæðum.

Kalda stríðið var enn í gangi árið 1985 og því er „Warning Sign“ að greina frá hugsanlegum viðbrögðum yfirvalda við ógn sem mögulega var til staðar. Veirur sem valda skaða eru sérlega óhugnanlegar værur og sú sem er til umfjöllunar hér er með þeim verri. Þeir sýktu verða vitskerrtir og morðóðir og nokkrum klukkustundum seinna deyja þeir.

Hröð, spennandi og vel mönnuð

Það er synd að gagnrýnendur svo til slátruðu myndinni því leikstjórinn og handritshöfundurinn Hal Barwood (hans eina mynd) og meðhöfundurinn Matthew Robbins („Mimic“, 1997) suðu hér saman virkilega góða ræmu sem sameinar vísindatrylli og uppvakningahrylling á einkar góðan og hnitmiðaðan máta. Myndin gengur ekki of langt í blóðslettum en nokkrar senurnar eru mjög spennuþrungnar og valda hrolli. Atburðarrásin er mjög hröð og varla dauða mínútu að finna allan sýningartímann. Stígandinn er góður og ónotatilfinning grípur áhorfandann þegar múgæsingur starfsmanna eykst og þeir átta sig á hættunni.

Þrátt fyrir mikinn hraða gefur lunkið handritið aðalpersónunum, þá sér í lagi Cal og Joanie, svigrúm til að stimpla sig inn hjá áhorfendum og gæðaleikararnir Waterstone („Law and Order“) og Quinlan („Apollo 13“, 1995) skila þeim vel frá sér. Allir skila sínu vel og Kotto („Live and Let Die“, 1973), DeMunn („The Hitcher“, 1986), Dysart („The Thing“, 1982) og Bailey („Police Academy“, 1984) þar á meðal. Sér í lagi er gaman að sjá Bailey tækla alvarlega rullu en hans verður ávallt helst minnst sem hinn seinheppni Lt. Harris í Police Academy myndunum.

Góð í sóttkví

„Warning Sign“ er eðal mynd til að kíkja á á meðan faraldur eins og Covid-19 gengur yfir. Hraður tryllir sem greinir frá atburðarrás sem er ekki svo fjarri raunveruleikanum en afleiðingarnar af óhappinu gerð slík eftirminnileg skil að margar seinni tíma bíómyndir fengu að láni bæði hugmyndir og ímyndir. Svo er það bara ágætt að endirinn er að mestu nokkuð góður og áhorfandinn er ekki skilinn eftir í algeru vonleysiskasti.

Oddur Björn Tryggvason