Út úr húsinu! – Fyrsta stikla úr 99 Homes

Fyrsta stiklan er komin út fyrir heimilisdramað 99 Homes með SpiderMan leikaranum Andrew Garfield og Man of Steel leikaranum Michael Shannon í aðalhlutverkum.

garfield

Myndin er eftir Ramin Bahrani en hann er þekktur fyrir skoðun sína á bandarískri þjóðarsál í dramamyndum eins og Man Push Cart, Chop Shop og At Any Price.

Í 99 Homes fjallar hann um húsnæðislánakrísuna bandarísku, sem við Íslendingar ættum að kannast vel við, bæði beint og óbeint.

Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í fyrra við góðar undirtektir, og verður frumsýnd í bíó í Bandaríkjunum í haust.

Myndin segir frá Dennis Nash, sem Garfield leikur, sem er faðir og byggingaverkamaður sem neyðist til að flytja inn til móður sinnar, sem Laura Dern leikur, eftir að hann er borinn út af heimili sínu af ógnandi fasteignamiðlara, sem Michael Shannon leikur.

Hann á erfitt með að finna vinnu í kjölfarið en þarf að brauðfæða fjölskylduna með einhverjum hætti. Hann byrjar að vinna fyrir miðlarann sem rak hann úr húsinu og gleymir sér í flottum lífsstíl sem fylgir því að hafa meiri peninga milli handanna. En þegar hið nýja líf Nash neyðir hann til að fara sjálfur að bera fólk út úr húsum sínum rétt eins og hann var sjálfur borinn út úr sínu eigin húsi, þá verður til spenna á milli hans og miðlarans sem mun breyta lífi allra hlutaðeigandi.

Myndin verður frumsýnd 25. september nk. í bíó í Bandaríkjunu.